Níu þingmenn stjórnarandstöðunnar leggja fram frumvarp um að stofnuð verði lagaskrifstofa Alþingis. Þar starfi fimm lögfræðimenntaðir og að minnsta kosti tveir þeirra séu prófessorar í lögum.
Vigdís Hauksdóttir, framsóknarflokki og einn þriggja flutningsmanna frumvarpsins, segir að lagasetning hér á landi verði að vera vandaðri og faglegri en undanfarna áratugi. Sambærilegar stofnanir séu starfræktar á hinum Norðurlöndunum með góðum árangri. Markmiðið sé í fyrsta lagi að ekki komi mál fyrir Alþingi sem innihaldi lagatæknilega ágalla eða samrýmast ekki stjórnarskránni. Einnig að létta álagi af dómstólum landsins sem og af umboðsmanni Alþingis.
„Auðveldlega má færa fyrir því rök að lök lagasetning undanfarin ár eigi einhvern þátt í því hvernig komið er fyrir okkur sem þjóð,“ segir Vigdís.„Yfirgnæfandi meiri hluti lagafrumvarpa sem samþykkt eru á Alþingi koma frá Stjórnarráðinu en hér á landi er hvorki starfandi lagaskrifstofa hjá Stjórnarráði Íslands né starfandi lagaráð hjá Alþingi sjálfu. Því kemur ekki á óvart að miklu fleiri hnökrar eru á íslenskri löggjöf en annars staðar á Norðurlöndum.“
Vigdís bendir á að núna standi Alþingi til dæmis frammi fyrir því að lögð séu fram frumvörp sem hafi í för með sér að lög virki afturábak: „Til dæmis er verið að reyna að lengja fyrningarfrest á ólöglegum gjörningum svo hægt sé að komast í eigur útrásarvíkinganna. Þá er verið að leggja fram frumvörp um að Alþingi eigi að skipa dómstólum að taka myntkörfulánin fyrir. Þetta gengur ekki lagalega.“ Alþingi megi ekki skipa dómstólum fyrir. Þeir eigi að vera óháðir og lög sé ekki hægt að setja afturvirkt. Lagaskrifstofa signtaði svona frumvörp út.
Vigdís trúir því að þetta mál fái brautargengi. Páll Pétursson, fyrrum þingmaður Framsóknarflokks, hafi lagt fram hugmyndir árið 1994 um lagaráð og Bryndís Hlöðversdóttir, fyrrum þingmaður Samfylkingar hafi talað fyrir lagaskrifstofu árið 2000.
„Það eru allir sammála um að lagasetningu verður að bæta,“ segir Vigdís.
Vigdís bendir á að mikill þjóðhagslegur ávinningur yrði af svona lagaskrifstofu. Kostnaðurinn við skrifstofuna þyrfti ekki að vera annar en launakostnaður þessara fimm starfsmanna.