Dýraverndunarsamtökin The International Fund for Animal Welfare (IFAW) ætlar að kæra sölu á íslenskum hvalaafurðum til Danmerkur og Lettlands. Kært verður til framkvæmdastjórnar ESB, stjórnar CITES, fulltrúa CITES í Danmörku, Lettlandi og á Íslandi, alþjóðalögreglunnar Interpol og Alþjóðlega tollasambandsins.
Vísa samtökin til þess, að samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Hagstofunnar hafi rúm 23 tonn af hvalmjöli verið seld til Danmerkur í janúar og mars á síðasta ári og er söluverðið tæplega 1,9 milljónir króna.
Þá hafi 250 kíló af frystu hvalkjöti verið flutt til Lettlands í janúar sl. að verðmæti tæplega 307 þúsund króna.
Segja samtökin að þótt Ísland geri fyrirvara við skráningu CITES á hvölum sem dýrategunda í útrýmingarhættu geri Danmörk og Lettland það ekki og því séu slík viðskipti ólögleg samkvæmt reglum CITES og Evrópusambandsins.
Þá kemur fram á vef Hagstofunnar, að í janúar á þessu ári hafi rúm 134 tonn af frystum hvalaafurðum verið flutt til Japans að andvirði rúmlega 308 milljóna króna. IFAW segir, að þar sem Japan geri einnig fyrirvara við flokkun CITES á hvölum séu slík viðskipti milli landanna ekki ólögleg svo framarlega sem farmurinn hafi ekki komið við í öðrum löndum á leiðinni.
Í tilkynningu frá IFAW er haft eftir Patrick Ramage, sem stýrir aðgerðum gegn hvalveiðum innan samtakanna, að nú sé verið að þrýsta á ríki Evrópusambandsins og önnur aðildarríki Alþjóðahvalveiðiráðsins að fallast á málamiðlun um hvalveiðar sem Ísland, Japan og Norðmenn beiti sér fyrir. „Svo virðist sem Ísland hafi sömu afstöðu til verndunar hvalastofna og landið hefur gagnvart sparifé og vilji að Alþjóðahvalveiðiráðið hljóti sömu örlög og efnahagur landsins."