Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir þær aðgerðir sem ríkisstjórnin kynnti í gær vegna skuldavanda heimilanna, segir þær óljósar og muni ekki duga. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, er á öndverðri skoðun og hefur mikla trú á aðgerðunum, sem hann segir í flestu fara eftir tillögum ASÍ.
„Mér finnst þetta mjög jákvætt skref sem þarna er tekið, mér sýnist að þær kröfur sem við höfum sett fram við stjórnvöld séu að flestu leyti ef ekki öllu til skila haldið,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, formaður Alþýðusambands Íslands.
Gylfi segist í megindráttum ánægður með þann aðgerðapakka sem ríkisstjórnin kynnti í gær, þar sé að finna úrræði sem ASÍ hafi lengi mælt fyrir, s.s. frjálsa greiðsluaðlögun að norskri fyrirmynd. Þá líst honum vel á hugmyndir um nýtt embætti umboðsmanns skuldara.
„Ég fagna því að efla eigi það starf sem hefur verið í Ráðgjafarstofu heimilanna. Við höfum talið það mjög mikilvægt að stofnanaleg umgjörð í kringum þetta sé skilvirkari og það sé unnið af meiri yfirsýn. Ég treysti því að í þessu frumvarpi verði gert ráð fyrir þeim fjármunum sem þurfa til að mæta þeim mikla fjölda heimila sem þurfa aðstoð.“
Hvað varðar ummæli forsætisráðherra að með aðgerðunum sé búið að ná utan um vandann segist Gylfi vilja hafa fyrirvara á því, fylgjast verði með hvernig fram vindur. „En ég er þeirrar skoðunar að það sé mjög langt gengið í því að mæta vandanum og vel að þessu staðið.“
Annar tónn er hinsvegar í Hagsmunasamtökum heimilanna, sem telja við fyrstu sýn að ekki sé nógu langt fram gengið með aðgerðunum.
„Það er athyglisvert að það eru fimm ráðuneyti sem koma þarna fram og þeim er mikið í mun að selja þá staðhæfingu að mikið hafi verið gert. Þarna er verið að slá svolítið um sig,“ segir Friðrik Ó. Friðriksson, formaður samtakanna.
Samtökin meta það sem svo, byggt á talnagrunni Seðlabankans og skattagögnum 2008, að tugir þúsunda heimila séu á leiðinni í eða þegar komin í verulega greiðsluerfiðleika. „Þetta gæti verið af stærðargráðunni 45 þúsund heimili,“ segir Friðrik. „Miðað við það er svolítið sláandi að félagsmálaráðherra sé ákaflega ánægður að nú sé einn og hálfur milljarður lagður til hliðar á greiðslujöfnunarleið, að 450 manns séu í greiðsluaðlögun og 350 manns komin í sértæka skuldaaðlögun. Þetta eru um 800 manns sem nota þessi úrræði, en það eru tugir þúsunda heimila sem standa frammi fyrir gríðarlega þröngri stöðu.“Friðrik er þeirrar skoðunar að úrræði ríkisstjórnarinnar séu ekki í samræmi við umfang vandans og leggur áherslu á að viðurkenna þurfi að forsendubrestur hafi orðið og ráðast í almenna leiðréttingu skulda.
„Þarna eru innleidd úrræði sem eru vissulega réttarbót og skref í rétta átt, en taka engan veginn á því að forða fólki frá því að lenda í greiðsluerfiðleikum.“
Embætti umboðsmanns skuldara sé liður í sömu stefnu. „Fólk fer í gegnum þetta með betri réttarstöðu, en fer samt í gegnum þetta. Það á að þvinga verulegan hluta íslenskra fjölskyldna inn í nauðasamninga, sem þýðir að þúsundir íslenskra fjölskyldna munu búa við skert fjárræði um komandi ár.“
Hann segir auk þess nauðsynlegt að þegar aðgerðir sem þessar séu kynntar tali menn skýrt, en það geri ríkisstjórnin ekki, s.s. hvað varðar hugmyndir um skattlagningu á niðurfellingu skulda. „Hvað er átt við með stórfelldum niðurfellingum? Ætla menn að gera þetta afturvirkt? Þetta er mjög óljóst og mér finnst þetta vera lítil skref miðað við umfang vandans eins og hann blasir við mér. Ég hef enga trú á því að þetta dugi til.“