Gerð var tilraun til að lama veigamikinn hluta af fjarskiptaneti höfuðborgarsvæðisins í nótt. Talið er að þremur bensínsprengjum hafi verið komið fyrir við fjarskiptamöstur í Öskjuhlíð og tvær þeirra sprungið. Ein fannst ósprungin. Atlagan er talin alvarleg.
Lögreglu var tilkynnt um eldinn kl. 4.42 í nótt. Vaktmenn í nálægu húsi munu hafa ráðist að eldinum með slökkvitækjum og ráðið niðurlögum hans.
Að sögn varðstjóra lögreglu höfuðborgarsvæðisins logaði eldur í köplum í tveimur möstrum á staðnum. Annað mastrið er í eigu Fjarska og hitt í eigu Mílu. Greiðlega gekk að slökkva eldinn. Töluvert tjón hlaust af eldinum. M.a. sló út sambandi Stöðvar 2 og OG fjarskipta en fyrirtækin eru með endurvarpa á möstrunum.
Varðstjórinn sagði að ekki væri vitað um eldsupptök og málið í rannsókn. Hann hafði ekki upplýsingar um að reynt hafi verið að kveikja í möstrunum.
Möstrin þrjú bera m.a. loftnet Símans, Vodafone, Tetra, Landsvirkjunar, Fjarska og Mílu. Ef tekist hefði að skemma búnaðinn hefðu bæði GSM fjarskipti og önnur fjarskipti svo sem örbylgjusambönd orðið fyrir mikilli truflun.
Blaðamaður mbl.is var á staðnum í morgun. Hann sagði að ósprungna sprengjan hafi innihaldið mikið bensín á stórum plastflöskum sem límdar voru saman og kveikibúnaður í miðjunni. Blaðamaðurinn sagði að menn á staðnum hafi líkt atlögunni við hryðjuverk.
Digital Ísland datt út
Útsending á örbylgjukerfi Og Fjarskipta á suðvesturhorni landsins truflaðist við íkveikjuna, að sögn Hrannars Péturssonar upplýsingafulltrúa Vodafone. Kerfið er þekkt sem Digital Ísland. Útsendingarnar trufluðust frá því um kl. 4.30 í nótt og til 7.15 í morgun. Engin truflun varð á GSM-fjarskiptum Vodafone.
„Það tók stuttan tíma fyrir okkur að gera við eftir að við komumst að,“ sagði Hrannar en lögreglan lokaði vettvangi um stund vegna rannsóknarinnar.
Samkvæmt upplýsingum frá Fjarska varð engin truflun á fjarskiptasamböndum fyrirtækisins við íkveikjutilraunina. Fjarski er í eigu Landsvirkjunar og rekur allt fjarskiptanet hennar.
Ekki varð truflun á fjarskiptaþjónustu Símans, að sögn Margrétar Stefánsdóttur upplýsingafulltrúa. Á mastrinu sem um ræðir er einungis farsímasendir Símans. Margrét sagði að fjarskiptakerfið sé þannig upp byggt að yfirleitt sé um fleiri en eina leið að ræða til að koma boðum á leiðarenda. Detti einn sendir út fari boðin aðra leið.
Verði truflun á fjarskiptum sagði Margrét að yfirleitt tæki skamma stund að bregðast við því, m.a. með færanlegum stöðvum og öðrum búnaði. Margrét sagði að viðkvæmustu staðirnir í fjarskiptakerfinu séu vaktaðir, m.a. með eftirlitsmyndavélum, allan sólarhringinn.