Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn, segir að íþróttafélögin hafi fengið þau skýru skilaboð að framkvæmdir samkvæmt gömlum samningum yrðu að bíða fram yfir kreppu.
Skrifstofa borgarstjóra sendi fyrr í dag frá sér tilkynningu um að verja ætti 230 milljónir til stækkunar á golfvelli við Korpúlfsstaði. Dagur segir að í tilkynningunni sé reynt að slá ryki í augu borgarbúa. Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri láti þar að því liggja að „verið sé að efna“ samning frá 2006.
„Greinilegt er að borgarstjóri er í nauðvörn vegna málsins,“ segir í tilkynningu frá Degi.
„Í fyrsta lagi: Samningnum við GR (Golfklúbb Reykjavíkur) frá 2006 var breytt árið 2007. Síðarnefndi samningurinn gerir ekki ráð fyrir neinum fjárútlátum Reykjavíkurborgar. GR fékk hins vegar leyfi til að nýta land til að fjármagna völl.
Í öðru lagi: Fyrst borgarstjóri nefnir samninga. Kjarninn í gagnrýni Samfylkingarinnar er einmitt sá að öll íþróttafélög hafa fengið þau skýru skilaboð að framkvæmdir samkvæmt gömlum samningum þurfi að bíða fram yfir kreppu.
Í þriðja lagi: Meira eða minna allir þjónustu- og rekstrarsamningar hafa þurft að taka miklum skerðingum. Sama á við um skóla og leikskóla. Það sama á við um laun og kjör kennara, verkafólks, stjórnenda, félagsráðgjafa o.s.frv. o.s.frv. Hvarvetna hefur verið niðurskurður, skerðingar og launalækkanir. Flestu hefur verið tekið af jafnaðargeði - enda kreppa og minna til skiptana. Forvarnarsjóður hefur verið lækkaður, afleysingarkennslu hætt, biðlistar í leikskólum lengdir, frístundakort barna fryst og sumarstörfum stór-fækkað, svo aðeins séu tekin örfá dæmi.
En ofan í þessa stöðu - þvert ofan í niðurskurðinn - og þá ótal samninga sem eru í frestun - segist Hanna Birna eiga 230 milljónir í golfvöll. Það er einmitt þetta ósamræmi sem Samfylkingin gagnrýnir. Pólitík snýst um forgangsröðun.“