Utanríkismálanefnd Alþingis fer á mánudag til Lundúna til fundar við fulltrúa utanríkismálanefndar og fjárlaganefndar breska þingsins. Fer einn fulltrúi frá hverjum flokki í nefndinni héðan og búast má við að staðan í Icesave-viðræðunum verði meginumfjöllunarefnið. Verða fundir annars vegar með formanni og fulltrúum úr utanríkismálanefnd neðri deildar þingsins og hins vegar með formanni og fulltrúum úr fjárlaganefnd.
Einnig munu íslensku þingmennirnir funda með svonefndum vináttuhópi Íslands og Bretlands sem starfar í breska þinginu.
Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar, segir í samtali við mbl.is að á þessum fundum verði rætt almennt um samskipti ríkjanna, stöðuna í Icesave og með hvaða hætti þingin geti lagt sitt af mörkum til að koma samskiptum Íslendinga og Breta í samt lag og leysa þau ágreiningsmál sem uppi eru. Ekki verður fundað með hollenskum þingmönnum í þessari ferð, en Árni Þór segir það hafa komið til umræðu.
„Okkur gafst færi á að hitta Bretana með stuttum fyrirvara. Við vildum ekki sleppa því, þó að við höfum ekki getað hitt Hollendinga. Þar eru líka erfiðari pólitískar aðstæður í bili," segir Árni Þór.
Árni Þór segir utanríkismálanefnd ætla að nota tækifærið til að koma málflutningi Íslendinga á framfæri, skiptast á skoðunum við Bretana um Icesave og freista þess að koma málinu áfram.
„Samningaviðræðurnar sjálfar eru auðvitað í höndum framkvæmdavalds ríkjanna, þingið er ekki í þeim viðræðum, en við teljum að það sé engu að síður mikilvægt að hitta þingið, útskýra okkar málstað og reyna að þoka málum eitthvað áfram," segir Árni Þór.
Með Árna Þór í ferðina fara Valgerður Bjarnadóttir, varaformaður utanríkismálanefndar, frá Samfylkingu, Birgitta Jónsdóttir, Hreyfingunni, Bjarni Benediktsson, Sjálfstæðisflokki, og Gunnar Bragi Sveinsson, Framsóknarflokki.