Upplýsingar sem ríkisskattstjóri hefur fengið frá bönkunum um hlutabréfaviðskipti sýna samkvæmt bráðabirgðatölum að 127 milljarða tekjur eru vantaldar á framtölum.
Ekki er gerð grein fyrir þessum viðskiptum á skattframtölum. Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri segir að nú sé komið í ljós, sem skattyfirvöld hafi lengi grunað, að þessi mál hafi alls ekki verið í lagi.
Til viðbótar þessu eru umtalsverðar tekjur af hlutabréfaviðskiptum hjá lögaðilum sem eftir er að fara yfir og kanna hvort skilað hafi sér í framtölum fyrirtækja.Þessar vantöldu tekjur eru til viðbótar vantöldum tekjum vegna afleiðuviðskipta en þær skipta mörgum milljörðum. Þessi mál fara núna í venjulegan farveg þar sem fólki gefst kostur á að koma að sjónarmiðum og leiðrétta framtölin.
Sjá nánari umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.