Framsýn- stéttarfélag skorar á sjávarútvegsráðherra að auka nú þegar við þorskkvóta á yfirstandandi fiskveiðiári þar sem margt virðist benda til þess að mun meira sé af fiski í sjónum en rannsóknir sýna, að því er segir í ályktun frá félaginu.
„Ljóst er að fjöldi báta mun stöðvast á næstu vikum vegna kvótaleysis með tilheyrandi atvinnuleysi meðal sjómanna og fiskvinnslufólks.
Um þessar mundir eru um 17.000 manns á atvinnuleysisskrá, sem er ekki bara ömurlegt fyrir þá sem ráfa atvinnulausir um stræti og torg, heldur kostar atvinnuleysið ríkissjóð um 25 milljarða á ári miðað við stöðuna eins og hún er í dag.
Að mati Framsýnar er því full ástæða til að ígrunda það mjög gaumgæfilega hvort ekki sé rétt að taka tillit til frétta af mikilli fiskgengd í kringum landið og auka kvótann tímabundið í samráði við hagsmunaaðila. Góð veiði undanfarið bendir til þess að mun meira sé af þorski í sjónum en mælingar Hafrannsóknarstofnunnar sýna.
Ekki þarf að fara mörgum orðum um þýðingu þess fyrir þjóðarbúið að aflinn verði aukinn, ekki síst í ljósi efnahagsástandsins og þess mikla atvinnuleysis sem er viðvarandi í þjóðfélaginu," segir í ályktun Framsýnar.