Fyrsti ABC dagurinn verður haldinn á morgun í Smáralind. Markmið dagsins er fyrst og fremst að kynna starf ABC barnahjálpar, afla nýrra stuðningsforeldra og að safna fé til styrktar götubarnastarfi ABC barnahjálpar, samkvæmt tilkynningu frá ABC barnahjálp.
ABC barnahjálp vonast til að geta komið á fót athvörfum fyrir götubörn á Indlandi og fleiri starfslöndum ABC fyrir það fé sem safnast á ABC deginum. Söfnuninni Börn hjálp börnum lýkur einnig á morgun. Meira en 3. 500 börn í 118 skólum tóku þátt í söfnuninni. Að þessu sinni var safnað fyrir byggingu skólahúsnæðis fyrir 250 börn á Indlandi.
Hægt verður að kynnast starfsemi ABC víða í Smáralind og gerast styrktarforeldri eða styrkja starfið með fjárframlögum. Dagskrá verður í Vetrargarðinum í Smáralind frá klukkan 13 til 19 og er aðgangur ókeypis.
Fjöldi listamanna og skemmtikrafta kemur þar fram og gefur vinnu sína. Þeirra á meðal eru: Raggi Bjarna, Logi Bergmann, Páll Rósinkranz , Villi naglbítur, Sjonni Brink, Hreimur, Skoppa og Skrítla, Siggi Ingimars, færeyska söngkonan Dorthea og grasrótartónlistarmenn eins og Ástþór Óðinn, Friðrik Dór, Magga Edda, Orri Err, Óli107, Extra, Nögl, Stjörnuryk og Siggi Breiðfjörð. Auk þess sýna fimleikastúlkur úr Gerplu listir sínar.
Dagurinn hefst í World Class, Laugum þar sem hægt verður að hlaupa fyrir ABC milli klukkan 9-12. Kílómeterinn verður seldur á 500 krónur sem renna óskiptar til ABC.