Umhverfisstofnun (UST) hefur metið kostnað við að gera tilraun til björgunar á hvítabjörnum sem ganga hér á land. Talið er að búnaður og upphafsþjálfun viðbragðshóps sé um 6,5 milljónir og að björgun hvers dýrs myndi kosta um 11,5 milljónir kr.
Árlegur rekstrarkostnaður vegna þjálfunar og búnaðar er áætlaður um tvær milljónir króna. Þetta kemur fram í minnisblaði sem Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra lagði fram á ríkisstjórnarfundi í morgun.
Gert er ráð fyrir að stærsta þyrla Landhelgisgæslunnar (LHG) sé notuð við björgun og flutning á dýrinu t.d. til Grænlands. Matið var unnið út frá reynslu UST og í samráði við LHG. Þá var stuðst við tækjalista Alþjóða dýraverndunarsamtakanna (IFAW) sem þau afhentu UST. Ekki var lagt mat á kostnað vegna aðgerða á áfangastað dýrsins.
Í minnisblaðinu kemur m.a. fram að óvíst sé hvort dýrin tvö sem gengu á land á Skaga í fyrra hefðu þolað flutning eða lifað af lengi eftir hann. Þá þyrfti að flytja dýrið þangað sem fæðuöflun þess og öryggi er tryggt, fjarri mannabyggðum. Grænlendingar heimila veiða á um 50 hvítabjörnum af aust-grænlenska stofninum á hverju ári.