Fjármálaráðuneytið hefur gefið út handbók undir yfirskriftinni Kynjuð fjárlagagerð: handbók um framkvæmd, sem ætlað er að varpa ljósi á aðferðafræði kynjaðrar fjárlagagerðar og vera þeim sem að fjárlagagerðinni koma til halds og traust, samkvæmt fréttatilkynningu frá fjármálaráðuneytinu.
Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð rík áhersla á kynjajafnrétti og er kynjuð fjárlagagerð ein leið að því marki. Stefnt er að því að kynna fyrstu verkefni ríkisins í kynjaðri fjárlagagerð í fjárlögum ársins 2011. Verkefnisstjórn um kynjaða fjárlagagerð, sem skipuð var af fjármálaráðherra í apríl 2009, mun hafa yfirumsjón með því verki.
Í kynjaðri fjárlagagerð felst að kynjasamþættingu er beitt í öllu fjárlagaferlinu. Það þýðir að í fjárlagavinnunni fer fram mat á áhrifum fjárlaga á kynin og er markmiðið að endurskipuleggja bæði tekju- og gjaldahlið fjárlaga á grundvelli jafnréttissjónarmiða. Kynjuð fjárlagagerð snýst ekki um helmingaskipti milli kynjanna heldur um greiningu á þörfum og aðstæðum hverju sinni.
Hún hefur þann kost að auka gagnsæi í ríkisfjármálum og gera það sýnilegra hvernig opinberu fé er varið í þágu þegnanna, jafnframt því að stuðla að betri markmiðssetningu," segir í tilkynningu.