Samherji hefur ákveðið að lengja sumarlokun í frystihúsi fyrirtækisins á Dalvík úr 3 vikum í 8. Ástæðan er „ítrekaðra tilfærslu stjórnvalda á aflaheimildum frá stærri skipum til minni,“ eins og segir í fréttatilkynningu.
Stjórnendur Samherja héldu fund með öllu starfsfólki sínu á Dalvík í dag sem eru um 150 manns. Auk þeirra voru boðnir á fundinn fulltrúar samstarfsfyrirtækja Samherja og verkalýðsfélagsins Einingar Iðju.
Boðað var til fundarins til að fara yfir landvinnslu Samherja á Dalvík í tölum og myndum, kynna starfsemi Samherja hf., kynna áhrif tilfærslna aflaheimilda af stærri skipum til smærri á rekstur Samherja á Dalvík og horfur til framtíðar.
„Á fundinum var starfsmönnum landvinnslunnar á Dalvík tjáð að engar uppsagnir starfsfólks stæðu fyrir dyrum. Hinsvegar væri nauðsynlegt lengja sumarlokun í frystihúsinu úr 3 vikum í 8 vegna ítrekaðra tilfærslu stjórnvalda á aflaheimildum frá stærri skipum til minni.
Sem dæmi um áhrif þessar stjórnvaldsaðgerða má nefna að skerðing Samherja í bolfiski eingöngu vegna strandveiðanna á þessu ári eru 450 tonn. Þessar aflaheimildir hefðu dugað til að reka frystihúsið í einn mánuð í viðbót. Strandveiðarnar skiluðu í heild 176 tonnum á land á Dalvík á síðasta ári.“
Launakostnaður Samherja á Íslandi árið 2009 var 4600 milljónir þar af voru 3200 milljónir vegna starfsmanna búsettra á Eyjafjarðarsvæðinu.
Samherji keypti vörur og þjónustu í Eyjafirði fyrir 1830 milljónir og veitti styrki til íþrótta og ýmissa félaga fyrir 70 milljónir.
Samtals greiddi félagið því 5000 milljónir til fólks og fyrirtækja í Eyjafirði árið 2009.
„Miðað við óbreytta stefnu stjórnvalda varðandi tilfærslu aflaheimilda milli útgerðarflokka og fyrirhugaða fyrningu er fyrirséð að starfssemi Samherja á Íslandi mun dragast saman og störfum í Eyjafirði fækka,“ segir í fréttatilkynningu.