Hrun fjármálakerfisins haustið 2008 er tímamótaviðburður í sögu íslensku þjóðarinnar. Hruninu fylgja mestu efnahagsörðugleikar sem Íslendingar hafa glímt við á síðari tímum.
Erfitt efnahagsástand og mikið atvinnuleysi mun á næstu árum setja mark sitt á þá skipulögðu glæpastarfsemi sem haldið er uppi á Íslandi. Umskiptum þessum fylgir að nýir möguleikar munu skapast fyrir afbrotamenn. Þetta kemur fram í nýrri matsskýrslu ríkislögreglustjóra á skipulagðri glæpastarfsemi á Íslandi.
Löglegt hér en ólöglegt í útlöndum
Í skýrslunni kemur fram að umfang kannabisræktunar sem lögregla stöðvaði á árinu 2009 styðja þá tilgátu að hluti framleiðslunnar hafi verið ætlaður til útflutnings.
Vakin er athygli á því í skýrslunni að efni hafa verið haldlögð hér á landi sem teljast ólögleg fíkniefni víða í Evrópu en hafa ekki hlotið slíka flokkun á Íslandi. Um er að ræða efni skyld amfetamíni. Vera kann að efni þessi séu nýtt til framleiðslu á amfetamíni hér á landi.
Innflytjendur fíkniefna eru ekki í gjaldeyrisvandræðum
Óvissa á vettvangi gjaldeyrismála veldur því að erfitt er að segja fyrir um líklega framtíðarþróun. Þótt gjaldeyrishöft séu í gildi eru upplýsingar greiningardeildar ríkislögreglustjóra á þann veg að innflytjendur fíkniefna eigi ekki í teljandi erfiðleikum með að komast yfir erlendan gjaldeyri.
Fíkniefnahagnaði varið í fyrirtækjakaup
„Um leið liggur fyrir að verð á fasteignum, fyrirtækjum og lausamunum ýmsum hefur fallið og á líklega eftir að falla enn frekar. Þetta hefur í för með sér þá hættu að hagnaði af fíkniefnaviðskiptum verður í auknum mæli varið til fjárfestinga. Slíkar fjárfestingar, einkum kaup á fyrirtækjum, geta þannig gert einstaklingum og glæpahópum fært að fela starfsemi sína á bakvið lögmætan atvinnurekstur sem aftur eykur möguleika þeirra t.a.m. á sviði fíkniefnainnflutnings og peningaþvættis.
Fíkniefnasmygl getur oftar en ekki af sér annars konar skipulagða glæpastarfsemi. Má þar nefna peningaþvætti, skjalafals, vændi, fjárkúgun og ógnanir. Samstarf íslenskra og erlendra glæpamanna kann því að verða víðtækara.
Sú hætta er fyrir hendi að til átaka komi með skipulögðum glæpahópum vegna samkeppni við erfiðari aðstæður á markaði. Minni fjármunir eru í umferð en áður, skuldir manna hafa hækkað og sú hætta er fyrir hendi að til átaka komi við innheimtu þeirra," segir ennfremur í skýrslu ríkislögreglustjóra.
Greiningardeild ríkislögreglustjóra segir að í því erfiða efnahagsástandi sem nú ríkir sé sú hætta fyrir hendi að svokölluðum „handrukkunum“, þ.e. innheimtu skulda með hótun um eða beitingu ofbeldis, muni fjölga.
Fram til þessa hefur þess háttar „innheimtustarfsemi“ aðallega tengst fíkniefnaskuldum en nú eru vísbendingar um að slíkum aðferðum sé einnig beitt við innheimtu annarra og hefðbundnari skulda þegar viðtekin úrræði hafa ekki skilað árangri.
Útlendingar beittir fjárkúgunum á Íslandi
Upplýsingar eru fyrir hendi um að útlendingar, einkum aðflutt verkafólk, sæti í einhverjum tilvikum fjárkúgunum, oft af hendi samlanda sinna. Ástæða er til að ætla að í einhverjum tilvikum sé viðkomandi gert að greiða gjald fyrir að hafa fengið vinnu.
Um þetta skortir fyllri upplýsingar og erfitt er að afla þeirra sem kann að segja sitt um þá ógn sem þetta fólk telur sig standa frammi fyrir. Fregnir berast af líkamsárásum og hótunum sem ekki eru kærðar til lögreglu, segir í skýrslunni.