Ragna Árnadóttir dómsmála- og mannréttindaráðherra hefur skipað Kristínu Völundardóttur, sýslumann á Ísafirði og lögreglustjóra Vestfjarða, í embætti forstjóra Útlendingastofnunar, frá og með 1. apríl nk.
Kristín lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1992 og L.LM.-gráðu frá McGill University í Quebec í Kanada árið 1994. Frá árinu 2007 hefur Kristín verið sýslumaður á Ísafirði og lögreglustjóri Vestfjarða. Árið 2006 var hún sýslumaður og lögreglustjóri á Hólmavík. Árið 2005 vann Kristín sem sérfræðingur á einkamála- og borgaraskrifstofu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og starfaði m.a. að útlendingamálum. Árið 2004 og fram í ársbyrjun 2005 var hún forstöðumaður leyfasviðs Útlendingastofnunar. Árið 2003 og fram til ársins 2004 starfaði Kristín sem lögfræðilegur ráðgjafi hjá Útlendingastofnun, en hún hóf störf hjá Útlendingaeftirlitinu árið 1999, sem gert var að Útlendingastofnun árið 2003. Árið 1999 vann Kristín hjá embætti ríkislögreglustjóra við meðferð hælisumsókna og almenna lögfræðilega aðstoð. Frá 1994-1999 starfaði Kristín hjá sýslumanninum í Kópavogi.
Aðrir umsækjendur um embættið voru Einar Örn Thorlacius, Gísli Rúnar Gíslason, Halldór Frímannsson, Halldór Eiríkur S. Jónhildarson, Jónína Bjartmarz, Kristján Baldursson, Oddur Gunnarsson og Ragnheiður Ólöf Böðvarsdóttir. Tveir drógu umsókn sína til baka.