Fréttaskýring: Segir forsetinn alla söguna?

Nasheed og Ólafur Ragnar ganga í átt til Öskju ásamt …
Nasheed og Ólafur Ragnar ganga í átt til Öskju ásamt fríðu föruneyti. Árni Sæberg

„Ég dreg þá ályktun að forseti Maldíveyja hafi fengið mjög villandi upplýsingar hjá gestgjafa sínum um frammistöðu Íslands í loftlagsmálum. Forseti Íslands hlýtur að hafa brugðið upp einhverri glansmynd um að hér væri nánast kolefnisfrítt samfélag,“ segir Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, um fyrirlestur Mohamed Nasheed, forseta Maldíveyja, í Reykjavík um síðustu helgi.

Nasheed kynnti sér orku- og sjávarútvegsmál í heimsókn sinni og var afraksturinn m.a. sá að hann mun halda árangri Íslands í notkun endurnýjanlegrar orku á lofti í baráttu sinni gegn loftslagsbreytingum. Ísland sé til vitnis um að raunhæft sé að stækka hagkerfið án þess að auka losun gróðurhúsalofttegunda.

Talan falin vísvitandi

– Af hverju bregður þér við þennan málflutning?

„Ef litið er á síðustu skýrslu Íslands til skrifstofu Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna í Bonn kemur ekki fram í skýrslunni hver losunin á mann er hér á landi. Ég spurðist fyrir um þetta en fékk þau svör að ég gæti deilt heildarlosuninni með mannfjöldanum í júní 2009, eða um það bil.

Þarna lætur Umhverfisstofnun hjá líða að veita mikilvægar upplýsingar og ég vil meina að það sé engin tilviljun að þessi tala er ekki kynnt í skýrslunni. Íslensk stjórnvöld skammast sín fyrir hana.“

– Telurðu því óraunhæft að Ísland sé það fyrirmyndarríki í loftslagsmálum, eða „Sönnunargagn A“ líkt og forseti Maldíveyja hyggst orða það í málflutningi sínum?

„Já. Ísland er ekki sönnunargagn fyrir því að hægt sé að þróa hagkerfi landa á kolefnisfrían hátt. Okkur hefur tekist að þróa húshitun og rafmagnsnotkun með þeim hætti.

Samgöngugeirinn hefur hins vegar ekki þróast á þann veg. Fiskveiðarnar eru mjög orkufrekar og áliðnaðurinn losar mjög mikið af gróðurhúsalofttegundum. Þar af leiðandi erum við Íslendingar að nálgast 16 tonn af losun á mann, tala sem fer hækkandi. Þrátt fyrir það höfum við sem þjóð ekki sett okkur skýr markmið um samdrátt.“

Forysturíkin ganga lengra

Árni gerir því næst hlé á máli sínu en les svo upp á ensku úr skýrslu þar sem fram kemur að Maldvíeyjar og Kosta Ríka hyggist draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda, með það að markmiði að samdrátturinn gangi lengra en sú skuldbinding að losun sé takmörkuð við hlýnun um 2 gráður á Celsíus.

„Þessi ríki eru í forystu á alþjóðavettvangi í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stefna Maldvíeyjar á að verða 100% kolefnisfrítt samfélag árið 2020. Til samanburðar ætlar Ísland að draga úr losuninni um 15% fyrir 2020. Við höfum aukið losunina undanfarin ár.

Aukningin á tímabilinu 2003 til 2007 nemur 18,2%. Þannig að þessi ágæti maður var ekki nógu vel upplýstur um hvernig ástandið er.“

Losun á mann aukist verulega

Árni segir losunina hafa aukist.

„Síðan Ísland samþykkti að auka losun um 10% á tímabilinu 2008 til 2012 miðað við 1990 hefur aukningin verið umfram þessi 10%. Nýjustu tölur sýna að við höfum ekki staðið okkur sem skyldi. Losun á mann hefur aukist verulega síðustu tíu ár,“ segir Árni og bætir því við að nefnd á vegum umhverfisráðherra muni skila aðgerðaáætlun um leiðir til samdráttar í losun í vor.

„Það var fyrst árið 2007 að vinna hófst við stefnumótun í loftslagsmálum,“ segir Árni og setur málflutning Ólafs Ragnars í samhengi við stöðuna í loftslagsmálum.

Ísland á langt í land

„Við erum í rauninni ekki með neitt í höndunum sem segir að við séum Guðs besta barn í loftslagsmálum. Alls ekki. Það er hægt að telja upp margar ástæður fyrir því að forseti Maldíveyja hefur fengið rangar upplýsingar í hendur.“

Áhrifamikill fyrirlestur

„Mér fannst stórmerkilegt að sjá þennan mann sem hefur barist fyrir lýðræðisumbótum og kemur frá eyjum sem hætta er á að hverfi í hafið,“ segir Halldór Björnsson, sérfræðingur á Veðurstofu Íslands, um fyrirlestur baráttumannsins Mohamed Nasheed, forseta Maldíveyja, síðustu helgi.

„Ef við gefum okkur að meðalhitinn hækki um tvær gráður – og að mannkyninu takist að hemja frekari hækkun – munu þessar eyjar eftir sem áður fara meira og minna í kaf þó það gerist ekki á þessari öld. Þess vegna fannst mér fyrirlesturinn mjög áhrifamikill.“

Fangelsaður fyrir skoðanir

Nasheed sór embættiseið sem forseti Maldíveyja í nóvember 2008, eftir að hafa borið sigurorð af Maumoon Abdul Gayoom, forseta landsins 1978-2008.

Nasheed fór ekki leynt með gagnrýni sína á stjórnarhætti Gayoom og meint kosningasvik.

Stjórnin kunni málflutningi Nasheed illa og setti hann á bak við lás og slá. Þar var Nasheed með hléum lungann af síðasta áratug en það var fyrr á þessum áratug sem hann stofnaði stjórnmálaflokk sinn í útlegð. Barátta Nasheed hefur orðið öðrum að innblæstri.

Í hnotskurn
» Árni tekur aðspurður undir að þróun bílaflotans hafi verið þvert á þá ímynd að Íslendingar séu þjóða meðvitaðastir um þessi mál.
» ´Á málþingi Skipulagsstofnunar um loftslagsmál árið 2008 hafi komið fram að losun frá umferð frá höfuðborgarsvæðinu hafi aukist um 54% frá árinu 1990.
» Hluti skýringinnar liggi í fjölgun stærri bíla.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert