„Ég dreg þá ályktun að forseti Maldíveyja hafi fengið mjög villandi upplýsingar hjá gestgjafa sínum um frammistöðu Íslands í loftlagsmálum. Forseti Íslands hlýtur að hafa brugðið upp einhverri glansmynd um að hér væri nánast kolefnisfrítt samfélag,“ segir Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, um fyrirlestur Mohamed Nasheed, forseta Maldíveyja, í Reykjavík um síðustu helgi.
Nasheed kynnti sér orku- og sjávarútvegsmál í heimsókn sinni og var afraksturinn m.a. sá að hann mun halda árangri Íslands í notkun endurnýjanlegrar orku á lofti í baráttu sinni gegn loftslagsbreytingum. Ísland sé til vitnis um að raunhæft sé að stækka hagkerfið án þess að auka losun gróðurhúsalofttegunda.
„Ef litið er á síðustu skýrslu Íslands til skrifstofu Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna í Bonn kemur ekki fram í skýrslunni hver losunin á mann er hér á landi. Ég spurðist fyrir um þetta en fékk þau svör að ég gæti deilt heildarlosuninni með mannfjöldanum í júní 2009, eða um það bil.
Þarna lætur Umhverfisstofnun hjá líða að veita mikilvægar upplýsingar og ég vil meina að það sé engin tilviljun að þessi tala er ekki kynnt í skýrslunni. Íslensk stjórnvöld skammast sín fyrir hana.“
– Telurðu því óraunhæft að Ísland sé það fyrirmyndarríki í loftslagsmálum, eða „Sönnunargagn A“ líkt og forseti Maldíveyja hyggst orða það í málflutningi sínum?
„Já. Ísland er ekki sönnunargagn fyrir því að hægt sé að þróa hagkerfi landa á kolefnisfrían hátt. Okkur hefur tekist að þróa húshitun og rafmagnsnotkun með þeim hætti.
Samgöngugeirinn hefur hins vegar ekki þróast á þann veg. Fiskveiðarnar eru mjög orkufrekar og áliðnaðurinn losar mjög mikið af gróðurhúsalofttegundum. Þar af leiðandi erum við Íslendingar að nálgast 16 tonn af losun á mann, tala sem fer hækkandi. Þrátt fyrir það höfum við sem þjóð ekki sett okkur skýr markmið um samdrátt.“
„Þessi ríki eru í forystu á alþjóðavettvangi í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stefna Maldvíeyjar á að verða 100% kolefnisfrítt samfélag árið 2020. Til samanburðar ætlar Ísland að draga úr losuninni um 15% fyrir 2020. Við höfum aukið losunina undanfarin ár.
Aukningin á tímabilinu 2003 til 2007 nemur 18,2%. Þannig að þessi ágæti maður var ekki nógu vel upplýstur um hvernig ástandið er.“
„Síðan Ísland samþykkti að auka losun um 10% á tímabilinu 2008 til 2012 miðað við 1990 hefur aukningin verið umfram þessi 10%. Nýjustu tölur sýna að við höfum ekki staðið okkur sem skyldi. Losun á mann hefur aukist verulega síðustu tíu ár,“ segir Árni og bætir því við að nefnd á vegum umhverfisráðherra muni skila aðgerðaáætlun um leiðir til samdráttar í losun í vor.
„Það var fyrst árið 2007 að vinna hófst við stefnumótun í loftslagsmálum,“ segir Árni og setur málflutning Ólafs Ragnars í samhengi við stöðuna í loftslagsmálum.
„Ef við gefum okkur að meðalhitinn hækki um tvær gráður – og að mannkyninu takist að hemja frekari hækkun – munu þessar eyjar eftir sem áður fara meira og minna í kaf þó það gerist ekki á þessari öld. Þess vegna fannst mér fyrirlesturinn mjög áhrifamikill.“
Nasheed fór ekki leynt með gagnrýni sína á stjórnarhætti Gayoom og meint kosningasvik.
Stjórnin kunni málflutningi Nasheed illa og setti hann á bak við lás og slá. Þar var Nasheed með hléum lungann af síðasta áratug en það var fyrr á þessum áratug sem hann stofnaði stjórnmálaflokk sinn í útlegð. Barátta Nasheed hefur orðið öðrum að innblæstri.