Fjármálaráðherra kynnti á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun frumvarp, sem gerir ráð fyrir að kostnaður vegna vinnu iðnaðarmanna við íbúðarhúsnæði, þar á meðal sumarhús, verði frádráttarbær frá skatti. Miðað er við að frádrátturinn geti numið að hámarki 200 þúsund krónum hjá einstaklingum og 300 þúsund krónum hjá hjónum.
Indriði H. Þorláksson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, sagði að markmiðið með þessum ráðstöfunum sé að örva þessar framkvæmdir, sem hefði í för með sér aukna atvinnu og einnig að stuðla að því að vinna af þessu tagi sé uppi á yfirborðinu.
Á síðasta ári voru sett lög um að hækka tímabundið endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna viðhalds og endurbóta á íbúðarhúsnæði til eigin nota, úr 60% í 100%. Indriði sagði, að þetta hefði greinilega haft áhrif en samt hefðu viðhaldsframkvæmdir við íbúðarhúsnæði á síðasta ári ekki náð sama stigi og árið 2008.
Indriði sagði, að áætlað væri að ríkið gæti orðið af um 1 milljarðs króna skatttekjum á ári að óbreyttum forsendum vegna þessa skattafrádráttar. Ef ráðstafanirnar myndu hins vegar leiða til aukinnar atvinnu og hafa frekari jákvæð áhrif yrði kostnaðurinn fljótur að skila sér.
Gert er ráð fyrir að þessar ráðstafanir séu tímabundnar.