Bjartsýni starfsfólks í einkageiranum hefur dregist saman frá áramótum 2007 og 2008 en stendur í stað í opinbera geiranum. Þetta er meðal þess fram kom í erindi Arneyjar Einarsdóttur, lektors í viðskiptadeild HR, á fyrirlestramaraþoni skólans í gær.
Þar fluttu 42 fræðimenn skólans erindi um allt milli himins og jarðar. Fyrirlestramaraþonið var vel sótt en þetta er í annað sinn sem það er haldið í HR.
Arney hefur undanfarin ár rannsakað ýmis vinnutengd viðhorf og þar með talið bjartsýni starfsfólks. Í erindi hennar í gær kom fram að almennt hafi starfsfólk einkageirans verið jákvæðara í ýmsum vinnutengdum viðhorfum í góðærinu en dregið hafi saman með fólki í viðhorfum á þessum tveimur vinnumörkuðum í kjölfar hrunsins. Nú er því starfsfólk í einkafyrirtækjum ekki lengur bjartsýnna en starfsfólk í opinberum stofnunum.
Bjartsýni er eitt af grunnviðhorfum starfsfólks og taldi Arney ástæðu til þess að hafa áhyggjur af umræddri þróun. „Það þarf bjartsýni til að takast á við endurreisn efnahagslífsins,“ sagði hún.
Arney benti á, til útskýringar, að efnahagshrunið og kreppan hefði komið meira niður á einkageiranum en opinbera geiranum. Í þeim fyrrnefnda hefði til dæmis verið mun meira um uppsagnir og ýmsar samdráttaraðgerðir svo sem eins og launalækkanir þegar á vordögum 2009.