Sigurjón Þórðarson var í dag kjörinn formaður Frjálslynda flokksins. Hann segist reikna með því að gera einhverjar breytingar á flokknum en spurður hvers lags breytingar það yrðu segist hann ætla að láta verkin tala. Ásta Hafberg var kosin varaformaður.
„Við erum bjartsýn á framtíðina í flokknum,“ segir Sigurjón. „Það má segja að það sem við höfum haldið fram á umliðnum árum hefði betur náð fram að ganga því þá væri þjóðin ekki í þessum sporum sem hún er í í dag. Þ.e. varðandi verðtrygginguna, kvótabraskkerfið og skuldasöfnunina.“
Sigurjón fer fögrum orðum um forvera sinn, Guðjón A. Kristjánsson, sem hefur tekið við stöðu formanns fjármálaráðs flokksins. „Ég vonast til þess að geta orðið jafngóður formaður og Guðjón Arnar því hann hefur staðið sig mjög vel og ég er sannfærður um það að ef þjóðin hefði notið leiðsagnar hans og forystu frekar en Jóhönnu, Davíðs, Geirs og Halldórs þá værum við í miklu betri málum.“
Sigurjón segist ætla að gera einhverjar breytingar í flokknum en vill ekki fara nánar út í þær. „Ég reikna með að ég láti verkin tala hvað það varðar. Ég vil virkja fólk og fá fólk til starfa því ég held að almenningur geti tekið að miklu leyti tekið undir málflutning og sjónarmið Frjálslynda flokksins í stóru sem smáu. Við höfum barist fyrir almannahagsmunum frá stofnun.“