Kvennahreyfing Samfylkingarinnar hélt ársþing sitt í Hveragerði í gær og lýsti þingið yfir ánægju með störf fyrsta kvenforsætisráðherra Íslandssögunnar, Jóhönnu Sigurðardóttur.
Í ályktun þingsins segir, að á liðnu ári hafi ríkisstjórn undir forystu Jóhönnu tekist á hendur eitt erfiðasta verkefni sem nokkur ríkisstjórn hafi staðið frammi fyrir, að endurreisa íslenskt efnahagslíf við afar erfiðar aðstæður. Mörg stór verkefni bíði en ekki megi gleyma að á sama tíma hafi margt áunnist í íslenskri kvennabaráttu.
„Kvennahreyfing Samfylkingarinnar vekur sérstaka athygli á fátækt og alvarlegri fjárhagsstöðu sem margar konur og börn þeirra búa við. Meirihluti öryrkja, aldraðra og láglaunafólks hér á landi er konur og þúsundir kvenna eru atvinnulausar. Þá eru einstæðir foreldrar í langflestum tilfellum konur. Konur og börn af erlendum uppruna eru í sérstakri áhættu fyrir félagslegri mismunun.
Sveitarstjórnir og ríkisvald skulu taka mið af þessum staðreyndum í ákvörðunum og aðgerðum sínum. En baráttan fyrir frelsi og réttindum kvenna einskorðast ekki við landsmálin. Miklu skiptir að ríkisstjórn undir forystu Samfylkingarinnar sé leiðandi í samstarfi og stuðningi við konur og samtök þeirra á alþjóðlegum vettvangi af framsýni og myndarbrag. Þá vill Kvennahreyfing Samfylkingarinnar brýna ríkisstjórn Íslands í því verkefni að vinna að friði og gegn stríðsrekstri hvers konar,“ segir meðal annars í samþykkt kvennahreyfingar Samfylkingarinnar.