„Erfið staða efnahagsmála, þröng kvótastaða margra fyrirtækja og óljós áform stjórnvalda um breytingar á fiskveiðilöggjöfinni magna upp óvissu í greininni sem veldur spennu víða um land. Menn vilja vinnufrið og efasemdir um að nú sé rétti tíminn til að breyta verða sífellt háværari," segir í ályktun atvinnumálanefndar Dalvíkur.
Í gær var tilkynnt á starfsmannafundi hjá Samherja á Dalvík að fyrirtækið yrði að lengja sumarfrí úr 3 vikum í 8 vikur vegna hráefnisskorts.
Í ályktuninni er skorað á stjórnvöld að auka þorskkvóta og jafnframt segir í henni:
„Dalvíkurbyggð á mikið undir því að stöðugleiki ríki í sjávarútvegi; stór hluti íbúanna vinnur við sjávarútveg þar sem fiskvinnsla er snar þáttur í atvinnustarfseminni. Ef ekki næst sátt milli aðila mun það hafa í för með sér langvarandi deilur með tilheyrandi óvissu og valda verulegum skaða fyrir sjárvarpláss eins og Dalvikurbyggð og þjóðfélagið í heild."