Fjöldahjálparstöðvum Rauða krossins á Hvolsvelli, Hellu og í Vík í Mýrdal hefur verið lokað eftir að aðgerðarstjórn almannavarna aflétti rýmingaráætlun að mestu leyti. Íbúar á fjórtán bæjum mega enn ekki snúa til síns heima og verður þeim sem á þurfa að halda útveguð gisting.
Yfir 40 sjálfboðaliðar og starfsmenn hafa staðið vaktina hjá Rauða krossinum frá því um miðnætti í gær. Fjöldahjálparstöðvar voru opnaðar innan klukkutíma frá því fréttir bárust af eldgosinu og rýming hófst.
Skráningu á rúmlega 600 manns af hættusvæðinu í fjöldahjálparstöðvunum á Hvolsvelli, Hellu og í Vík var lokið fyrir klukkan 3 í nótt. Um 17 manns gistu í fjöldahjálparstöðinni á Hvolsvelli, og um 78 fengu gistingu á Vík og 36 í Heimalandi undir Eyjafjöllum. Flestir fóru til aðstandenda utan hættusvæðis.
Sjálfboðaliðar og sérfræðingar Rauða krossins veittu sálrænan stuðning á vettvangi, og sáu þeim sem þurftu fyrir veitingum.
Hjálparsími Rauða krossins 1717 var virkjaður sem upplýsingasími strax upp úr miðnætti. Fólki var bent á að leita upplýsinga þar um afdrif aðstandenda, og voru fjölmargir sem nýttu sér það úrræði. Rauði krossinn útvegaði einnig enskan og pólskan túlk í samhæfingarstöðina í Skógarhlíð til að veita upplýsingar til íbúa og ferðamanna á svæðinu.