Eldgosið færist í aukana

Þessi mynd er tekin frá Fljótsdal innst í Fljótshlíðinni nú …
Þessi mynd er tekin frá Fljótsdal innst í Fljótshlíðinni nú í nótt. Gosið er líklega í Fimmvörðuhálsinum norðanverðum. mynd/Katrín Möller Eiríksdóttir

Eldgosið í Eyjafjallajökli hefur færst í aukana, að sögn Þrastar Sigfússonar í Kirkjulækjarkoti. Hann fór að Fljótsdal, innsta bæ í Fljótshlíð ásamt Katrínu Möller Eiríksdóttur. Töluvert öskufall var frá Fljótsdal og að Barkarstöðum, að sögn þeirra Þrastar og Katrínar.

Öskufallið var eins og „brunninn pappír eða litlar snjóflyksur“. Þau Þröstur og Katrín hættu sér ekki út úr bílnum enda var óþægilegt að anda utan hans. Björgunarsveitarmenn báðu þau að fara af staðnum og urðu þau við því. Þröstur sagði að þeim hafi virst eldgosið vera við Fimmvörðuháls að norðanverðu. 

Fréttir hafa borist af því að eldsbjarminn frá gosinu hafi sést  í Mývatnssveit núna á þriðja tímanum í nótt en hann er horfinn nú.

 Á vef Veðurstofunnar kemur fram að undanfarnar þrjár vikur hefur verið mikil virkni í Eyjafjallajökli og hafa skjálftarnir flestir mæst á 7 - 10 kílómetra dýpi. Í fyrradag (19. mars) hófst innskotshrina til austurs þar sem skjálftarnir mældust á 4 - 7 kílómetra dýpi. Virknin færðist frekar austur á bóginn fram til laugardags og mældust nokkrir grunnir skjálftar þann dag.

Um 22:30 í gær sást lítilsháttar aukning á óróa á þremur jarðskjálftastöðvum sem næstar eru Eyjafjallajökli og um svipað leyti bárust fregnir af því að gos væri hafið í jöklinum.

Á jarðskjálftamælum sést ekki mikill órói og um kl. 2.30 í nótt sást ekki enn gosmökkur á ratsjá Veðurstofunnar sem merkir að hann er ekki kominn í þriggja kílómetra hæð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert