Þegar eldgos verður á Íslandi eru ákveðnar vinnureglur sem Flugstoðir fara eftir, er varða flugumferð. Til að byrja með er allri flugumferð beint frá eldstöðinni og svæðinu lokað í 120 sjómílna radíus. Flugvöllum á sama svæði er einnig lokað, þetta þýðir að Keflavíkurflugvöllur, Reykjavíkurflugvöllur og Akureyrarflugvelli hefur verið lokað þangað til ítarlegri upplýsingar liggja fyrir. Egilsstaðaflugvöllur, sem skilgreindur er sem alþjóðlegur flugvöllur eins og Reykjavíkur-, Akureyrar- og Keflavíkurflugvöllur, hefur ekki verið lokað. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Flugstoðum.
Þar segir ennfremur að Flugumferð yfir íslenska flugstjórnarsvæðinu, sem er eitt stærsta úthafssvæði heims, hefur verið beint suður með landinu. Þeim flugvélum sem þegar áætluðu að lenda á Keflavíkurflugvelli hefur verið beint á aðra flugvelli, ekki á Íslandi.
Þegar búið er að safna ítarlegri upplýsingum og ljóst hvar gosmökkurinn mun liggja þá er þessi viðbúnaðaráætlun endurskoðuð.
Starfsmenn Flugstoða, í samvinnu við starfsmenn flugstjórnarmiðstöðva nágrannaþjóða okkar æfa viðbrögð við eldgosi reglulega. Öllum er ljóst mikilvægi þess að bregðast rétt við þegar eldgos verður. Gosmökkur sem berst um háloftin getur haft mikil áhrif á flugumferð langt frá Íslandi.