Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur á Jarðvísindastofnun, segir að litlar breytingar hafi orðið á gosvirkni þá þrjá tíma sem hann fylgdist með gosinu úr lofti snemma í morgun. Hann segir hugsanlegt að gossprungan á Fimmvörðuhálsi lengist þegar líður á gosið.
Freysteinn var yfir gosstöðvunum í eina þrjá tíma í morgun, á milli kl 4-7. Freysteinn sagði að gosvirkni hefði verið nokkuð jöfn allan tímann og litlar breytingar á gossprungunni.
„Þetta er tilkomumikil kvikustrókavirkni. Gossprungan er um einn kílómetri á lengd.“
Freysteinn sagði að hraunstraumarnir væru aðallega tveir, annar sem rennur til austurs og hinn til vestur. Hann sagði að straumurinn til vestur væri meginhraunstraumurinn. Það hefði hins vegar verið erfiðara að skoða hann vegna þess að ekki hefði verið hægt að fljúga yfir hann.
„Gossprungan hefur nokkuð sérsaka stefnu því að hún hefur norðlæga stefnu á meðan flestar sprungur á svæðinu liggja í austur-vestur stefnu.“
Freysteinn sagði að gossprungan lægi mjög nálægt jökuljaðri bæði Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls. „Gosið þýðir að það léttir á þrýstingi á Eyjafjallajökli. Við teljum að þetta samtengt virkninni sem er búin að vera þar. Skjálftadreifingin segir okkur að kvikan sé að koma undan Eyjafjallajökli í þetta eldgos. Mesta líkur eru á að þungi atburðarrásarinnar verði þarna. Það sem getur hins vegar gerst er að gossprungan lengist í aðra hvora áttina. Ef að hún lengist til suðurs þá getur hún náð undir jökul, en við höfum engar vísbendingar um að það væri að gerast meðan við vorum í þessu flugi.“
Freysteinn sagði að miðað við stöðu gossins eins og það væri núna væri enginn ís að bráðna og því ekki líkur á jökulhlaupi. Segja mætti að gosið væri á mjög heppilegum stað hvað þetta varðar.