Ofsahræðsla greip um sig í félagsheimili

Ungmenni úr Reykjavík sem voru í skemmtiferð í félagheimilinu Gunnarshólma …
Ungmenni úr Reykjavík sem voru í skemmtiferð í félagheimilinu Gunnarshólma voru færð í skyndi í flóttahjálparstöð sem komið var upp í grunnskólanum á Hvolsvelli. Reynt verður að koma þeim heim til Reykjavíkur í nótt. mbl.is/Sigmundur Sigurgeirsson

Uppi varð fótur og fit í Félagsheimilinu Gunnarshólma í Austur-Landeyjum um miðnættið í nótt. Þar voru um 40 nemendur frá Menntaskólanum við Sund í leiklistarferð í góðu yfirlæti, þegar kona ein kom aðvífandi og tjáði þeim að eldgos væri hafið í Eyjafjallajökli. Þau yrðu að forða sér á stundinni.

Kristín Anný Walsh var í hópnum og náði mbl.is tali af henni nú fyrir skemmstu. ,,Okkur var sagt að fara bara út strax. Þetta var mjög óljóst fyrst og við vorum öll í rosalegu panikki að koma okkur út. Við skildum megnið af dótinu okkar eftir, tókum bara það sem var hendi næst og hlupum út," segir Kristín Anný.

Hún kveðst líklega ekki hafa verið lengur að koma sér út en fimm mínútur. Reyndar varð einn nemandinn eftir, en hann hafði verið sofandi inni í sínu herbergi. Farið var til baka að ná í hann og svo ekið í loftköstum á Hvolsvöll.

„Á Hvolsvelli var okkur bara sagt að við mættum ekki fara til baka núna. Við vitum ekki hvort við fáum að fara aftur þangað að sækja dótið okkar á morgun, hinn eða bara seinna," segir Kristín Anný, sem var nokkuð létt við að ekki væri jafnmikil hætta á ferðum og fyrst virtist, en ljóst er að þetta ferðalag mun seint líða MS-ingunum úr minni.

ATHUGASEMD sett inn klukkan 08:06

Tekið skal fram að ekki er um ferðalag að ræða á vegum MS heldur eru þetta nemendur úr skólanum á eigin vegum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert