Öruggara að sofa ekki heima

Öskumökkurinn sást vel í dag.
Öskumökkurinn sást vel í dag. Ómar Óskarsson

„Ég held að fæst okkar hafi sofið mikið í nótt,“ segir Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri. Hann er einn af um 50 íbúum á bæjum undir Eyjafjöllum sem rýma hafa þurft hús sín. Ólafur segir jákvætt að geta sofið á öruggu svæði í nótt.

Ólafur segir að það hafi komið ónotalega við menn að fá tilkynningu um nótt um að gos væri hafið. Menn hafi frekar átt von á að fá viðvörun um yfirvofandi gos. Hann segist í engum vafa um að menn fái betri svefn þegar þeir sofi á öruggu svæði en heima hjá sér þar sem viss hætta sé til staðar.

Stórt bú er á Þorvaldseyri og fengu bændur að fara heim kl. 7 í morgun til að mjólka. Aftur var farið í kvöld til að mjólka og gefa búfé. Tvær kýr báru í nótt og fékkst leyfi til að fara til að sinna þeim, en draga þurfti kálf úr annarri beljunni.

Ólafur segir að það veki athygli hvað skjálftarnir í kvöld séu svipaðir skjálftunum sem voru í gærkvöldi. Þeir séu fáir en heldur sterkari en þeir voru þegar óróinn var sem mestur fyrr í mánuðinum. Hann segist ekki hafa þekkingu til að túlka þetta en að þetta sé eitt af því sem íbúar horfi á og telji því tryggara að vera að heiman í nótt.

Þorvaldseyri er í 5-6 kílómetra fjarlægð frá gosstöðvunum á Fimmvörðuhálsi. Íbúar á bænum sáu vel gosbjarmann í nótt. Slæmt verður hefur hins vegar verið undir Eyjafjöllum í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert