Rýmingu lokið á forgangssvæðum

Ragna Árnadóttir fylgist með stjórnstöð almannavarna í nótt.
Ragna Árnadóttir fylgist með stjórnstöð almannavarna í nótt. mbl.is/Júlíus

Rýming á hættusvæðinu undir Eyjafjallajökli hefur gengið mjög vel og er lokið á forgangsvæðum, að sögn Víðis Reynissonar hjá almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra.  „Við rýmdum þarna stærra svæði en áætlun gerði ráð fyrir og það gekk bara mjög vel og fólk er rólegt og yfirvegað."

Blaðamaður Morgunblaðsins er staddur í samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð þar sem fjöldi manns stendur vaktina. .„Þetta eru fleiri hundruð manns í heildina, það eru björgunarsveitir í Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu, það eru lögreglumenn, slökkviliðsmenn, sjúkraflutningamenn. Almannavarnakerfið allt er á tánum yfir þessu og lögreglumenn og björgunarsveitarmenn eru á leiðinni austur til að aðstoða. Þannig að það er mikið í gangi."

Verður upplýst um útsýnisstaði fyrir gosið

Að sögn Víðis er margt enn á huldu um eðli gossins. „Stóra spurningin núna hvenær rýmingaráætlun verður aflétt. En það er allavega ljóst og vísindamenn hafa sagt okkur það að þetta er óvenjulegur atburður, gosið hegðar sér öðru vísi heldur en menn hafa séð og það er eitthvað sem við verðum að skoða í samvinnu við þá í nótt og á morgun."

Eins og áður segir hefurverið lokað fyrir umferð í austurátt frá Selfossi.  „Þegar við vitum meira um ástandið og vísindamenn verða búnir að átta sig betur á þessu þá munum gefa upplýsingar um hvert er hægt að fara og horfa á gosið, en við biðjum fólk um að vera ekki að fara austur á meðan við erum að klára rýmingarnar og ná tökum á ástandinu. Mér sýnist að fólk hafi farið eftir þessu, það er ekki mikil umferð eins og er."

Björgunarsveitarmenn á Suðurlandi loka veginum milli Selfoss og Víkur.
Björgunarsveitarmenn á Suðurlandi loka veginum milli Selfoss og Víkur. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert