Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands segir í samtali við mbl.is að enn sjái hann ekki merki um jarðhræringar á jarðskjálftamælum. Hann getur því lítið tjáð sig um eðli og umfang gossins sem nú virðist vera hafið í Eyjafjallajökli.
Ástæður þess að ekki sjáist virkni á skjálftamælum segir Páll geta verið ýmsar, meðal annars þær að gosið sé lítið að umfangi. Hins vegar sé það mjög óvenjulegt að gos sé hafið en komi ekki fram á jarðskjálftamælum. Hann mun fylgjast með þróuninni í nótt.
Fréttir hafa nú borist af því að gosið sjáist frá Fljótshlíð og sé norðaustantil í Eyjafjallajökli. Aðspurður um það hvað sú staðsetning segi honum um framhaldið segir Páll að þá sé gosið mögulega norðantil í Fimmvörðuhálsi. Það geti mögulega þýtt að ekki verði neitt ofanflóð vegna gossins. Það sé hins vegar alls óvíst. Hann vill hins vegar lítið segja um þetta á þessum tímapunkti, enda fréttir allar frekar óljósar enn sem komið er.