Smáskjálftavirkni hefur minnkað til muna eftir að gos hófst í Eyjafjallajökli seint í gærkvöld. Gosóróinn náði hámarki klukkan 7-8 í morgun og svo aftur milli klukkan 11 og 15 en virðist hafa minnkað síðan, líkt og um 10-leytið í morgun.
Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur sagði fyrir hádegi í dag að engin leið væri að spá fyrir um gang gossins. Gosinu gæti lokið á morgun, en það gæti líka staðið í 1-2 ár.
Eitt af því sem jarðvísindamenn fylgjast með er hvort gossprungan lengist. Hún er um einn kílómetri á lengd. Til samanburðar var gossprungan um fjórir kílómetrar við upphaf síðasta Heklugoss. Ef gossprungan lengist gæti hún náð undir jökul, en það myndi þýða að bráðnun íss hæfist.
Jarðvísindamenn fylgjast einnig vel með hvort skjálftavirkni breytist eitthvað í Kötlu. Fyrri gos í Eyjafjallajökli hafa öll leitt til goss í Kötlu.