Þetta er heimsviðburður

Á myndinni sést gossprungan og inn í Þórsmörk.
Á myndinni sést gossprungan og inn í Þórsmörk. mbl.is/RAX

„Þetta er heimsviðburður, því þúsundir ára eru síðan eldsumbrot hafa átt sér stað á Fimmvörðuhálsi,“ sagði Brynjólfur Sigurbjörnsson staðarhaldari í Básum í samtali við Mbl. fyrir stundu. Hann var þá á ferðinni í Þórsmörk, þar sem heita Foldir, þaðan sem ekki sást til gosstöðvanna vegna skýja.

Nú í birtingu sást hins vegar að Eyjafjallajökull var hvítur yfir að líta, sem aftur staðfestir að gjóska hefur ekki fallið í eldgosinu.

Engir gestir voru í Básum í nótt, aðeins Brynjólfur og Ragnheiður Hauksdóttir kona hans sem þar eru staðarhaldarar. „Ég vona að ekki komi til þess að við þurfum að yfirgefa staðinn, það gerist ekki nema hraun eða vatn fari að renna hér niður. Við erum vegna þessa ástands í góðu sambandi við lögregluna á Hvolsvelli og þess albúin að flýja ef þess þarf. Erum hér með stóran vörubíl og gætum þá farið héðan í skyndingu yfir Markarfljótið og svo til byggða um Rangárvallaafrétt," sagði Brynjólfur sem kvaðst taka þessum óvæntu atburðum af æðruleysi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka