Þurfum að fylgjast með Kötlu

Gosið er á sprungu á Fimmvörðuhálsi á milli Eyjafjallajökuls og …
Gosið er á sprungu á Fimmvörðuhálsi á milli Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls. RAX / Ragnar Axelsson

Öll gos í Eyjafjallajökli hafa leitt til goss í Kötlu. Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur segir engan vafa leika á að flokka megi gosið sem hófst í nótt undir gos í Eyjafjallajökli og því sé full ástæða til að fylgjast vel með jarðhræringum í Kötlu á næstunni.

Þrisvar sinnum hefur gosið í Eyjafjallajökli á sögulegum tíma, þ.e. árið 920, 1612 og 1821. Páll segir að öllum þessum gosum hafi gosið í Kötlu samhliða. Ekki sé vitað í hvaða röð gaus í eldstöðvunum árið 920 og 1612, en í kjölfar gossins 1821, sem stóð til 1823, hófst gos í Kötlu.

Páll segir að til viðbótar þessu hafi átt sér stað kvikuinnskot í Eyjafjallajökli árið 1999 sem hafi leitt til þess að það kom smágusa niður Sólheimajökul. Í kjölfarið hafi einnig orðið órói í Kötlu.

Páll segir að eldstöðvarnar í Kötlu og Eyjafjallajökli séu tvær aðskildar eldstöðvar. Hraunið sem upp úr þeim komi sé efnafræðilega mismunandi og því sé ekki um það að ræða að kvikan komi úr sama kvikuhólfinu. Engu að síður virðist gos í Eyjafjallajökli duga til að koma Kötlu af stað.

Katla gaus síðast árið 1918. Það eru því að verða 100 ár síðan þar varð gos síðast, en Páll segir að þetta sé lengsta hlé sem Katla hafi tekið sér á sögulegum tíma.

Fullyrða má að gos í Kötlu er miklu meiri atburður en það gos sem nú er í gangi. Ekki er aðeins um meira gos að ræða heldur fylgja því jökulflóð sem geta skapað mikla hættu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka