Þúsund farþegar strandaglópar

Gosmökkurinn sést, svartur yfir miðju Íslands, á gervihnattarmynd frá Eumetsat.
Gosmökkurinn sést, svartur yfir miðju Íslands, á gervihnattarmynd frá Eumetsat.

Öll flugumferð til og frá landinu hefur verið stöðvuð vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Um það bil þúsund farþegar Icelandair sem ætluðu með vélum félagsins til Evrópu nú í morgunsárið eru standaglópar. Þá eru vélar frá þremur áfangastöðum félagsins í Bandaríkjunum stopp vestra.

Áfangastaðir morgunsins hjá Icelandair voru Frankfurt, Osló, Stokkhólmur, Amsterdam, Kaupamannahöfn og London. Ferðir til þessara áfangastaða voru settar á ís þegar fregnir af eldgosinu bárust en reglum samkvæmt er allt flug stöðvað í 120 mílna fjarlægð frá eldstöðvum. Auk þessa hafa vélar frá Boston, Olando og Seattle ekki komist að vestan og bíða þar. Með þeim eru væntanlegir á fimmta hundrað farþegar.

„Við sendum út tilkynningar á öll hótel í Reykjavík um leið og fréttir af eldgosinu bárust og báðum fólk að halda kyrru fyrir. Núna bíðum við eftir frekar upplýsingum frá Flugstoðum og næst verður flug athugað klukkan 9. Ef við fáum grænt ljós þá gætu vélar okkar farið í loftið um kl. 11,“ sagði Guðjón Arngrímsson upplýsingafulltrúi Icelandair í samtali við Mbl.

Icelandair Express flýgur kl. London kl. 10:30. „Mér skilst að við getum lagt af stað á ellefta tímanum,“ sagði Matthías Imsland framkvæmdastjóri Iceland Express. Hann undirstrikaði þó að mikilvægt væri að fólk fylgdist þó vel með öllum upplýsingum um flugumferð á Netinu og textavarpinu.

Allt flug hjá Flugfélagi Íslands liggur niðri. „Við bíðum bara eftir upplýsingum frá flugstjórnarmiðstöðinni um öskufall og annað og sjáum hvernig mál þróast," sagði Árni Gunnarsson framkvæmdastjóri FÍ í samtali við Mbl. Ríflega 1.200 manns eiga í dag bókað far með félaginu og 34 ferðir eru á áætlun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka