Alþingi kallað saman klukkan 13:15

Frá Alþingi.
Frá Alþingi.

Alþingi hefur verið kallað saman klukkan 13:15 í dag vegna útbýtingar þingskjala en hefðbundinn fundartími á mánudögum er klukkan 15. Væntanlega verður þar dreift frumvarpi um lög til að stöðva verkfall flugvirkja en ríkisstjórnin kemur saman klukkan 12 til að fjalla um slíkt frumvarp.

Upp úr samningaviðræðum milli flugvirkja og Icelandair slitnaði um áttaleytið í gærkvöldi. Að sögn Kristjáns Kristinssonar, formanns samninganefndar flugvirkja, bar talsvert mikið á milli samningamanna.

„Það munaði líklega um 4 prósentum á því sem við vildum ná fram og því sem þeir buðu. Þeir voru tilbúnir að hækka laun að einhverju marki gegn hagræðingu á móti, eins breytingu á vinnutíma og fleira. Það vorum við ekki tilbúnir að fallast á.“ Kristján segir rekstur Icelandair ganga vel núna og telur að vel sé svigrúm til launahækkana.

Hann segir byrjunarlaun flugvirkja með sveinspróf vera um 318 þúsund í dagvinnu og að launin geti hækkað um 26 og hálft prósent á fimmtán árum. Flugvirkjanám er fimm ára nám og fara flestir til náms í Danmörku þar sem ekki er boðið upp á nám í flugvirkjun hérlendis.

Flugvirkjar fóru í nokkurra klukkustunda verkfall fyrir nokkrum vikum. Samningaviðræðum var þá ekki slitið og náðust þá samningar sem síðar voru felldir.

Verkfallið sem hófst klukkan eitt í nótt hefur eingöngu áhrif á flug Icelandair en ekki annarra flugfélaga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert