Engin merki eru um að neitt sé að draga úr eldgosinu á Fimmvörðuhálsi. Það hefur heldur aukist frá því í gær ef eitthvað er, að mati Magnúsar Tuma Guðmundssonar prófessors, sem flaug yfir gosstöðvarnar í dag. Hann segir það misskilning að nýtt fjall hafi myndast á Fimmvörðuhálsi.
Magnús sagði að á gosstöðvunum hafi runnið hraun og að gígar séu lítið farnir að myndast enn og ekkert fjall. Svartur bingur sem sést á ljósmyndum er fjall sem var þar fyrir og er orðinn svartur af ösku, að sögn Magnúsar.
Gossprungan virðist ekki hafa styst síðan í gær.
Hraunið hefur breiðst töluvert út og nær núorðið niður í efsta hluta Hrunaárgils. Þar er það að vinna sig í gegnum fannir og jökulskafla og stendur því töluverður gufumökkur upp úr gilinu. Magnús Tumi sagði að hraunið hafi stækkað töluvert á hálsinum.