Eyjafjallajökull gaus síðast 1821-1823 þannig að hann hvíldi sig vel og lengi, að vísu voru svonefnd kvikuinnskot undir fjallinu árið 1999 en ekkert gaus. Að þessu sinni gýs á Fimmvörðuhálsi, sem er hluti af sömu eldstöð. Ljóst er að virknin getur færst undir ísinn með tilheyrandi flóði ef sprungan lengist. Önnur hætta er þó enn ófrýnilegri: Katla, skessan ægilega sem svo oft hefur valdið geysilegu tjóni.
Enn eru á lífi Íslendingar sem muna eftir gosinu 1918 en það eyddi mörgum bæjum. Ef tekið er mið af sögunni er þegar liðinn óvenjulangur tími frá síðasta Kötlugosi og hafa Almannavarnir gert miklar ráðstafanir til að búa sig undir flóðin og öskufallið.
Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur hefur bent á að mikil tengsl séu á milli eldstöðvanna í jöklunum tveim en rannsóknir bergfræðinga sýni að ekki sé þó um sömu eldstöðina að ræða. Kvikuinnskot undir Eyjafjallajökli gætu vakið Kötlu af blundi, virkað eins og gikkur, segir Páll. Hann minnir á að Katla hafi gosið 1823 í kjölfar Eyjafjallajökuls.
„Þetta gos er í fullum gangi núna og við fylgjumst vel með,“ segir Páll. „Atburðarásin getur tekið ýmsar stefnur, þess vegna er svo mikilvægt að fylgjast vel með öllu. Það er vel hugsanlegt næsta þrep að Katla taki eitthvað við sér en hún hefur ekki gert það enn. Liðið gætu nokkrar vikur eða mánuðir áður en hún gerir það. Þrýstingur undir Eyjafjallajökli hefur verið að aukast undanfarið, kvika hefur verið að troða sér upp og þá tútnar fjallið út og lyftist. Katla verður þá fyrir hliðarþrýstingi. Frá vísindalegu sjónarhorni er mjög forvitnilegt að fylgjast með þessu. “
Eftir gosið í Heimaey 1973 hafi menn fyrst farið að nota verulega næma jarðskjálftamæla. Beitt sé einnig GPS-tækjum og nýjum ratsjám sem sýni þróunina með mikilli nákvæmni og þetta skipti ekki síst máli þegar fólk fjalli um hættuna af Kötlu. Mjög vel hafi tekist að segja fyrir um þróun mála í Grímsvötnum 2004, fyrst með langtímaspá og loks með spá um gos rétt áður en það hófst.
„Við stöndum í allt öðrum sporum en við gerðum fyrir bara 25 árum,“ segir Páll. Hann minnir á að þótt Katla sé hættuleg verði Íslendingar að sætta sig við að lifa með eldfjöllunum. Ekki megi gleyma að eldurinn sem þau minna okkur stöðugt á sé líka undirstaða einnar af stærstu auðlindum okkar, jarðvarmans.
Að meðaltali líða um þrjú ár milli eldsumbrota en um fimm ár milli umtalsverðra gosa.
Hvers vegna gýs oft hér?Landið liggur á „heitum reit“ á Mið-Atlantshafssprungunni þar sem ávallt er mikil eldvirkni. Hve mörg virk eldfjöll eru hér?
Um 20 fjöll hafa gosið eftir að land byggðist á 9. öld og þau eru því örugglega virk. En alls eru eldfjöll hér um 130. Hvað gerist ef gýs undir jökli?Ísinn bráðnar mjög hratt og geysimikið vatnsflóð rennur til sjávar. Það gerðist þegar Katla gaus 1918 og í Vatnajökulsgosinu 1996. Hvað gerist þetta hratt?Það fer eftir aðstæðum. Ef gos yrði undir Eyjafjallajökli er hugsanlegt að hlaup gæti náð byggð á aðeins 15-30 mínútum. Hvað er vatnsmagnið mikið?
Gæti orðið allt að 30.000 rúmmetrar á sekúndu. Það er samt enn meira í Skaftárhlaupum. Hvað er langt milli Kötlugosa?Líklegt er að síðustu aldir hafi liðið að jafnaði um 13 ár milli gosa. Nú eru hins vegar liðin 92 ár frá síðasta gosi.