Þingflokkar Samfylkingar, Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs og Sjálfstæðisflokks styðja frumvarp samgönguráðherra um að stöðva verkfall flugvirkja með lögum. Þingflokkur Framsóknarflokksins vill hins vegar að gerðardómur verði skipaður til að fjalla um kjaradeilu flugvirkja og Icelandair.
Samgöngunefnd Alþingis fjallaði um frumvarpið í einn og hálfan klukkutíma í dag og skilaði síðan áliti þar sem lagt er til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, mælti fyrir áliti meirihluta samgöngunefndar og sagði að það væri skoðun nefndarmeirihlutans, að verkfallið muni valda íslensku samfélagi verulegu tjóni og þótt ekki sé gott að þurfa að grípa til lagasetningar af þessu tagi sé það óhjákvæmilegt vegna þeirra miklu þjóðarhagsmuna, sem í húfi eru.
Þá sagði Björn Valur, að staðfest hefði verið á fundi samgöngunefndar í dag að engin lausn væri í sjónmáli í kjaradeilunni. Brýndi hann báða samningsaðila til að halda áfram viðræðum og ná samkomulagi sem fyrst.
Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að lög á verkföll væru ekki til sátta fallin í þjóðfélaginu. Tugir samninga á vinnumarkaði væru lausir í náinni framtíð og þetta geti ekki verið leiðin til að glíma við það ástand.
Lagði Guðmundur fram breytingartillögu sem gerir ráð fyrir að kjarasamningar flugvirkja haldi gildi sínu þar til gerðardómur, skipaður einum fulltrúa frá hvorum deiluaðila og oddamanni sem ríkissáttasemjari tilnefnir, hafi leyst úr ágreiningi um endurnýjun kjarasamnings, nema nýr kjarasamningur sé gerður. Miðað er við í tillögunni, að gerðardómurinn kveði upp úrskurð ekki síðar en 30. maí og gildi hann til 30. nóvember.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, lýsti algerri andstöðu við frumvarp ríkisstjórnarinnar og sagði það vera aðför að launafólki.
Ásbjörn Óttarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sem stendur að áliti meirihluta samgöngunefndar, sagðist styðja frumvarpið með blendinni hugsun en hann gerði það vegna þess ástands sem er í þjóðfélaginu. „Þessum mönnum, það er flugvirkjum, stendur til boða 11% launahækkun sem er talsvert umfram það sem öðrum stendur til boða og líka umfram það sem viðsemjandinn, Icelandair, hefur samið um við aðrar stéttir," sagði Ásbjörn.