„Nóttin var mjög góð,“ sagði Ragnheiður Hauksdóttir í Húsadal í Þórsmörk. Hún og Brynjólfur Sigurbjörnsson eru þar staðarhaldarar. Ragnheiður sagði að þau hafi gengið á Valahnjúk í gærkvöldi til að sjá gosstöðvarnar í Eyjafjallajökli. „Það var glæsilegt,“ sagði Ragnheiður.
Skyggni var mjög gott og sást eldsprungan mjög greinilega. Ragnheiður sagði að þau hafi ekkert heyrt frá gígnum uppi á Valahnjúknum, þar sem var nokkur vindur, en þegar þau komu aftur niður í trjágróðurinn heyrðist meira. „Við urðum vör við smá skjálfta í gærkvöldi en ekkert meira. Nóttin var ósköp róleg.“
Ekki sést til gosstöðvanna úr Húsadal. Ragnheiður kvaðst ekki hafa orðið vör við það í morgun að nein gjóska hafi fallið þar og ekkert sýnilegt úr dalnum að eldgos sé rétt handan við hornið, ef svo má segja.
Ekkert væsir um þau Brynjólf og allt „í góðum gír“ í Húsadal. Þau áttu von á 160-170 manna hópi um næstu helgi og eru svolítið uggandi yfir að missa af þeirri heimsókn, ef ekki verður búið að aflétta farbanni í Þórsmörk.
Í gærkvöldi sáu þau Ragnheiður og Brynjólfur fjölda bíla hinum megin við Markarfljótið. „Það var perlufesti af bílum,“ sagði Ragnheiður. „Þetta var greinilega bíltúr dagsins.“ Hún sagði að bílarnir hafi komið bæði úr Fljótshlíðinni og verið nær Emstrum. Þau urðu ekki vör við neina bíla inni í Þórsmörkinni.