Ýmis verkefni komu á borð lögreglunnar á Selfossi í liðinni viku. Má þar nefna tilkynning um týnda hænu í Hveragerði og geltandi hund á Selfossi.
Tilkynnt var um tvær bílveltur í umdæmi lögreglunnar á Selfossi um helgina. Sú fyrri varð um kvöldmatarleytið á föstudagskvöldið á Hellisheiði
þar sem ökumaður, einn í bifreiðinni, missti stjórn á bifreið sinni í krapa og
hálku með þeim afleiðingum að bifreiðin fór útaf veginum og valt. Sjúkrabifreið fór á staðinn en ökumaður
reyndist ómeiddur.
Síðara tilvikið átti sér stað rétt eftir miðnætti á
föstudag á Villingaholtsvegi við
félagsheimilið Þjórsárver. Ungur
ökumaður með fjóra farþega missti stjórn á bifreið sinni á mótum bundins
slitlags og malarlags á veginum.
Bifreiðin fór eina og hálfa veltu.
Ökumaður og farþegarnir fjórir
voru fluttir með sjúkrabifreið á heilsugæslustöðina á Selfossi til aðhlynningar
en enginn reyndist alvarlega slasaður.
Ökumaður sem lögreglumenn höfðu afskipti af vegna hraðaksturs reyndist einnig undir áfengisáhrifum. Ellefu aðrir ökumenn voru kærðir fyrir hraðakstur. Einn ökumaður var kærður fyrir að aka bifreið sviptur ökuréttindum.