Hlutabréfasala skattlögð eins og launatekjur

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þorkell

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað kröfu Þórðar Más Jóhannessonar, fyrrverandi forstjóra Straums, um að úrskurði í skattamáli hans verði snúið við. Þetta þýðir að Þórður Már þarf að telja hagnað af sölu hlutabréfa í Straumi fram sem launatekjur en ekki sem fjármagnstekjur eins og hann hafði gert.

Þórður Már var sem forstjóri Straums með kaupréttar- og sölusamning. Hann keypti hlutabréf árið 2003 á 14 milljónir og seldi þau árið eftir á 91,7 milljónir. Þórður taldi hagnað af þessum viðskiptum fram sem fjármagnstekjur, en af þeim ber að greiða 10%. Ríkisskattstjóri hóf rannsókn á málinu 2006 og úrskurðaði að Þórður hefði átt að telja hagnaðinn fram sem launatekjur. Jafnframt var lagt á 25% álag við endurákvörðun skattsins. Yfirskattanefnd staðfesti þennan úrskurð en felldi álagið niður.

Þórður Már lagði málið fyrir héraðsdóm og taldi m.a. frestur skattstjóra til að aðhafast í málinu hefði verið liðinn þegar hann úrskurðaði í málinu í október 2007. Dómarinn hafnaði þessu.

Í niðurstöðu héraðsdóms segir að viðskiptin með hlutabréfin hafi verið skráð á nafn konu Þórðar. Hann hafi því ekki upplýst skattayfirvöld um að hann hafi eignast hlutabréfin sem hluta af starfskjörum sínum.

Í dómnum segir að samkvæmt tekjuskattslögum skuli skattskyldar tekjur meðal annars teljast fríðindi og hlunnindi, svo og framlög og gjafir sem sýnilega eru gefnar sem kaupauki.

„Við úrlausn á því hvort stefnanda hafi með umræddum hlutabréfakaupum verið veitt hlunnindi sem skattskyld eru samkvæmt ofangreindri meginreglu verður að líta til þess að stefnanda var af vinnuveitanda sínum boðið að gera umrædd viðskipti gegn því að hann skuldbindi sig til að starfa að lágmarki í tvö ár í þjónustu fyrirtækisins. Einnig er til þess að líta að ekki var öðrum starfsmönnum fyrirtækisins, eða almenningi, boðið að kaupa hlutabréf á viðlíka kjörum.“

Telur dómurinn að það fyrirkomulag að félagið útvegaði stefnanda lánsfé fyrir öllum kaupunum á hagstæðari kjörum en almennt gerðist og tryggði jafnframt að stefnandi gæti selt bréfin á ekki lakari kjörum en sem næmi kaupverði, ásamt fjármögnunarkostnaði, hafi á sama tíma dregið svo verulega úr áhættunni af því að eiga hlutabréf að hún nánast þurrkist út.

Dómarinn hafnaði því kröfum Þórðar Más og gerði honum að greiða 750 þúsund í málskostnað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert