Lög á verkfall flugvirkja

mbl.is/Eggert

Alþingi samþykkti laust eftir klukkan 17 að stöðva verkfall flugvirkja, sem hófst hjá Icelandair í morgun, með lögum. Var frumvarp þessa efnis samþykkt með 38 atkvæðum gegn 2 en 8 þingmenn Framsóknarflokksins sátu hjá.

Þau Þór Saari og Margrét Tryggvadóttir, þingmenn Hreyfingarinnar, voru ein andvíg lagafrumvarpinu. Sagði Þór, að launþegasamtök landsins hljóti nú að snúa bökum saman og segja sig úr Alþýðusambandi Íslands því þau samtök gæti ekki lengur hagsmuna launþega. „Þetta er sorgardagur," sagði Þór.

Róbert Marshall, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði hins vegar að málið væri brýnt. Afleiðingar verkfallsins væru svo miklar að við það yrði ekki unað og það bitnaði á fjölda starfsstétta, einkum í ferðaþjónustu. 

Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að aldrei yrði sátt um einhliða aðgerðir til að halda niðri launum. Hann lagði fram tillögu um að skipaður yrði gerðardómur um deiluna en sú tillaga var felld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka