Orkuveita Reykjavíkur tók í dag, á Degi vatnsins, í notkun nýjan vatnspóst við göngu- og hjólastíg í Fossvogi. Vatnspósturinn er rétt vestan við enda Árlands.
Vatnspósturinn er dæmi um vel hannaða nytjalist, en höfundur verksins er Sigurður Guðmundsson, rithöfundur og listamaður. Orkuveita Reykjavíkur hefur á undanförnum árum komið fyrir útivatnspóstum við Ægissíðu, Skólavörðuholt, Nauthólsvík, Sæbraut, í Árbæ og við Korpu. Einnig eru tveir vatnspóstar á Akranesi. Þá eru hundruðir vatnspósta í skólum og stofnunum borgarinnar.
Gísli Marteinn Baldursson, formaður Umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar afhjúpaði vatnspóstinn að viðstöddum gestum, m.a. börnum frá Garðaborg.