Talið er að fjórir geirfuglar hafi sést í Noregi árið 1848, fjórum árum eftir að síðustu geirfuglarnir hér á landi voru drepnir í Eldey 3. júní 1844. Þrír Norðmenn sáu fjóra geirfugla í mars eða apríl 1848 á milli eyjanna Vardø og Renø. Þeir skutu einn þeirra án þess þó að hann væri nýttur.
Guðmundur Örn Benediktsson, kennari á Kópaskeri, rakst á frásögn af norsku geirfuglunum í bókinni Norges Fugleliv, 3. útgáfu 1979, útg. Det Beste A/S, Oslo. Þar er m.a. greint frá því að einn þremenninganna, L.O. Brodtkorb, hafi lýst fuglinum í bréfi til Collett prófessors.
Hann hafi nefnt að fuglinn hafi verið á litinn eins og álka, svartur og hvítur. En hann var miklu stærri, ámóta stór og margæs (Branta bernicla). Framan við hvort auga var hvítur flekkur. Hann þekkti líka fuglinn aftur á litmynd.
Guðmundur sagði að höfundar bókarinnar séu norskir vísindamenn. Þeir hafi því tekið þessa frásögn góða og gilda.
Náttúrufræðistofnun Íslands á uppstoppaðan geirfugl. hann var drepinn við Hólmsberg á Miðnesi árið 1821. Danskur greifi, Raben, sló fuglinn niður með ári. Fuglinn var stoppaður upp og þótti verkið hafa tekist vel því hann er vel varðveittur.
Geirfuglinn var seldur á uppboði hjá Sotheby's í London árið 1971 og sleginn Finni Guðmundssyni fuglafræðingi. Kaupverðið var 9.300 sterlingspund. Ýmis félög höfðu safnað fyrir fuglinum á meðal almennings hér á einungis fjórum dögum. Upphæðin samsvaraði þá andvirði þriggja herbergja íbúðar í Reykjavík.
Náttúrufræðistofnun á einnig eitt geirfuglsegg en þau eru fágætari en uppsettir geirfuglshamir.