Ríkisstjórn og alþingismenn sýndu einbeittan brotavilja. Þetta segir í yfirlýsingu frá Félagi íslenskra flugumferðarstjóra, en lög verða sett á kjaradeiluna.
Félag fordæmir inngrip ríkisstjórnar og Alþingis í kjaradeiluna. „Ríkisstjórnin sýnir einbeittan og ítrekaðan brotavilja þegar kemur að stjórnarskrárbundnum réttindum launþega í kjarabaráttu og alþingismenn koma hlaupandi eins og rakkar þegar kallið kemur til að stimpla gjörninginn. Þingheimur virðist tilbúinn að svipta þegna landsins réttindum sínum í kapphlaupi við tímann en allt öðru máli gegnir þegar kemur að kröfum í samfélaginu á borð við að bankaleynd sé aflétt, eignir auðmanna frystar, rannsóknum á ástæðum bankahrunsins hraðað og þannig má áfram telja.
Þjóðin mun fylgjast grannt með þessum gjörningi alþingismanna. Um leið og félagið fordæmir hann lýsir það stuðningi við flugvirkja í sinni kjarabaráttu.“