„Þetta voru læti,“ sagði Þórólfur Gíslason, bóndi á Lækjarbakka í Mýrdal, en þakplötur fuku af íbúðarhúsi hans í dag. Mjög hvasst var í Mýrdal í dag og losnuðu þakplötur á þremur húsum, en auk þess fauk gámur á hliðina í Vík og fleira lauslegt.
Þórólfur var að fara út þegar sviptivindur náði skyndilega að rífa plötur af þakinu. Tvíbýli er á Lækjarbakka og fuku nokkrar plötur á hitt íbúðarhúsið. Ekkert teljandi tjón varð þó á því.
Félagar í björgunarsveitin Víkverji í Vík komu fljótlega og strengdu dúk yfir þakið. Þórólfur sagði að menn myndu koma og negla járn á þakið strax og veður leyfði.
Íbúðarhúsið á Lækjarbakka er byggt 1938. Þórólfur lét veðrið ekki á sig fá og gisti í íbúðarhúsi sínu í nótt eins og ekkert hefði í skorist.
Þakplötur fuku einnig af fjósi á Reyni í Reynishverfi. Þá fauk gámur fauk til í Vík. Grétar Einarsson, félagi í Víkverjar, sagði að stórhætta hefði stafað af gámnum, en sem betur fer hefði tekist að binda hann niður áður en hann náði að fjúka lengra.