Tilkomumikið og stórfenglegt

Einn flugbjörgunarsveitarmanna úr Reykjavík við gossprunguna á Fimmvörðuhálsi.
Einn flugbjörgunarsveitarmanna úr Reykjavík við gossprunguna á Fimmvörðuhálsi. ljósmynd/Þór Kjartansson

Eftir Björn Jóhann Björnsson - bjb@mbl.is 

„Þetta var tilkomumikið og stórfenglegt eins og eldgos eru jafnan,“ sagði Þór Kjartansson sem ásamt þremur öðrum félögum sínum í Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík komst á vélsleða mjög nálægt gossprungunni á Fimmvörðuhálsi í dag, skömmu áður en leiðin þangað lokaðist vegna vonskuveðurs.

„Einna magnaðast var að sjá stikurnar á gönguleiðinni, sem eru gular og skera sig vel úr umhverfinu, ganga beint inn í gíginn. Gossprungan liggur þvert á gönguleiðina yfir Fimmvörðuháls,“ segir Þór við Morgunblaðið að ferð lokinni en aðeins voru nokkur hundruð metrar að sprungunni frá hól sem þeir félagar fóru upp á og mynduðu náttúruhamfarirnar.

Þór sagði samspil náttúrunnar ekki verða stórfenglegra, eldgos á milli tveggja jökla ofan við Þórsmörkina. Skammt á eftir þeim félögum voru jarðvísindamenn ásamt félögum í Flugbjörgunarsveitinni á Hellu í snjóbíl, sá hópur varð frá að hverfa vegna veðurhamsins, en mjög hvasst var á Fimmvörðuhálsi í dag og skyndilega skall á blindbylur. Vélsleðamennirnir náðu þó mjög mikilvægum gjóskusýnum fyrir vísindamennina að rannsaka og greina betur.

Öflugir gosstrókar

„Þarna spýttist hraun upp úr sprungunni og orðinn góð hraunbreiða til norðurs í áttina að Þórsmörk. Gosstrókarnir voru mjög öflugir að sjá og fallegur gosbarmur farinn að myndast. Þarna er að myndast vísir að fjalli eða felli,“ sagði Þór. Hann taldi ljóst að stika þyrfti gönguleiðina yfir Fimmvörðuháls á ný. Án efa yrði þetta með vinsælustu gönguleiðunum í sumar, ef hætt verður þá að gjósa.

„Við fundum ekki mikla lykt þarna en við heyrðum drunurnar óma í fjarska,“ sagði Þór en sem fyrr segir tóku þeir félagar gjóskusýni úr snjónum. Stíf austanátt feykti gjóskunni til vesturs frá sprungunni og á meðan þeir athöfnuðu sig sunnan við sprunguna var ekkert öskufall. Aska hafði hins vegar dreifst vel þarna í kring og hulið snjóinn á stórum kafla. Á leiðinni uppeftir komu þeir við í nýja skála Útivistar og að sögn Þórs var þar allt í góðu standi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert