Tímabundinn kraftur í gosinu

Gosmökkurinn sést hér úr Landeyjunum í morgun
Gosmökkurinn sést hér úr Landeyjunum í morgun Ljósmynd Jóna Sig

Gosóróinn jókst verulega upp úr klukkan sjö í morgun og varð mikil sprenging í gosstróknum sem fór upp í allt að fjögurra km hæð, að sögn Hjörleifs Sveinbjörnssonar, jarðfræðings hjá Veðurstofunni. Hins vegar virðist óróinn að mestu vera að baki nú rúmri hálfri klukkustund síðar.

Að sögn Hjörleifs er ekki vitað til þess að ný sprunga hafi opnast en gossprungan er á Fimmvörðuhálsi milli Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls. Það verði hins vegar betur ljóst eftir að búið er að fljúga yfir gosstöðvarnar á eftir. Ekki  virðist sem það sé mikil aska í gosstróknum þar sem hann er ljós á lit og væntanlega að mestu gufa.

Jarðskjálftarnir eru áfram litlir undir Eyjafjallajökli og frekar að þeir séu á meira dýpi en í nótt.

Samkvæmt upplýsingum frá aðgerðastjórn Almannavarna á Hellu eru ekki sjáanlegar neinar breytingar á eldgosinu á Fimmvörðuhálsi og var nóttin afar róleg en tveir voru á vakt í alla nótt hjá þeim. Fundur hefur verið boðaður hjá Almannavörnum klukkan níu og þar verður farið yfir stöðu mála.

Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni verður væntanlega flogið yfir gosstöðvarnar um hádegisbilið í dag en síðasta flug var um miðnætti í gær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert