Borgarfulltrúar yngjast upp

Það var ekki laust við að spenna væri í lofti í fundarherbergi borgarráðs laust fyrir klukkan tvö í dag þar sem fólk var önnum kafið við að undirbúa borgarstjórnarfund. Þar voru á ferðinni krakkar í Reykjavíkurráði Ungmenna, sem í vetur hafa unnið að tillögum sem þeir lögðu fram í borgarstjórn í dag.

Og það vantaði ekkert upp á þá vinnu hjá ungmennunum. Natan Kolbeinsson lagði til að mynda fram tillögu um að Reykjavíkurborg yrði skylt að útvega krökkum undir 18 ára aldri atvinnu yfir sumartímann, enda eigi þeir ekki rétt á atvinnuleysisbótum.

Tillaga Katrínar Júníönu Lárusdóttur var af öðrum toga en hún vill að fjármálakennsla verði tekin upp í öllum grunnskólum Reykjavíkur. Hún segir enda ekki vanþörf á.

Fleira brann á unga fólkinu, svo sem bættar almenningssamgöngur, samræmi í menntun milli grunnskóla og að sköpunarmiðstöð ungmenna á borð við þá sem var í Austurbæjarbíói yrði aftur komið á laggirnar. 


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert