Dæmdur fyrir að stela rotþró

Héraðsdómur Suðurlands.
Héraðsdómur Suðurlands. mbl.is

Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt 39 ára karlmann í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að stela rotþró sem stóð við sumarhús í Grímsnesi. Maðurinn var einnig sakfelldur fyrir að falsa kvittun til að reyna bera af sér sakir. Manninum hafði ekki verið gerð refsing áður.

Eigandi sumarhúss í Grímsnesi tók eftir því sumardaginn fyrsta árið 2008 að rotþró sem hafði verið fyrir utan bústaðinn hans var horfin. Hann tilkynnti stuldinn til lögreglu umsvifalaust og gaf skýrslu. Smiður sem vann við sumarhúsið veitti því síðar athygli að nýverið hefði rotþró verið sett niður við annað sumarhús og tilkynnti það lögreglu.

Lögregla hafði samband við sakborning í málinu sem neitaði þegar sök. Hann játaði að hafa sett niður rotþró nýverið en hana hefði hann keypt sjálfur nokkrum dögum fyrr. Gengið var á manninn að sýna kvittun en hann var viðskotaillur. Fór svo að rotþróin var grafin upp.

Á svipuðum tíma fór maðurinn með kvittun fyrir rotþró og hengdi upp við sumarhúsið þar sem hann tók hana í fyrsta stað. Eigandi sumarhússins fór rakleiðis með kvittunina til lögreglu og reyndist hún fölsuð. Við yfirheyrslu hjá lögreglu játaði maðurinn að hafa látið breyta umræddri kvittun fyrir sig og hengt hana fyrir utan bústaðinn í þeim tilgangi að hreinsa sig af áburði um þjófnað.

Þrátt fyrir þetta neitaði maðurinn ávallt sök. Í niðurstöðu dómsins segir að framburður hans hafi verið út og suður og engin leið að henda reiður á fullyrðingum hans um það hvernig rotþróin komst í hendur hans.

Ljósmyndir lágu fyrir af rotþrónni sem stolið var og þeirri sem grafin var upp hjá sakborningnum í málinu. Á báðum má sjá handskrifað á sama stað með hvítri málningu „2600 ltr. Rotþró“. Þrátt fyrir að dómurinn taldi ekki hægt, svo óyggjandi væri, að ganga út frá því að um sömu handskriftina sé að ræða, taldi dómarinn hafið yfir allan skynsamlegan vafa að um sömu áletrun sé að ræða.


2.600 lítra rotþró kostar um 130 þúsund krónur hjá Húsasmiðjunni.
2.600 lítra rotþró kostar um 130 þúsund krónur hjá Húsasmiðjunni. Ljósmynd/Húsasmiðjan
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert