Fallist á útburðarbeiðni bankans

Fallist var á beiðni Arion banka í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag að kona á fimmtugsaldri yrði borin út úr íbúð í Reykjavík en bankinn eignaðist húsnæðið á nauðungaruppboði fyrir rúmu ári síðan. Beiðni bankans barst héraðsdómi í september í fyrra.

Fram kemur í aðfararbeiðni og gögnum málsins að Arion banki keypti íbúðarhúsnæðið á nauðungarsölu þann 10. mars 2009 en konan var þinglýstur eigandi og uppboðsþoli.

Segir í greinargerð konunnar að hún hafi átt í fjárhagserfiðleikum á árinu 2008 og lent vanskilum með afborganir af fasteign sinni. Ýmislegt hafi spilað þar inn í, m.a. atvinnumissir hennar og erfiður skilnaður. Hún hafi einnig átt við verulegt áfengisvandamál að etja og farið í meðferð hjá SÁÁ vegna þess. Hún hefur hinsvegar ekki snert áfengi nú í rúmt ár.

Bankinn gerði  fjárnám í fasteigninni 28. janúar 2009. Í kjölfarið hafi verið farið fram á nauðungarsölu lauk henni þann 10. mars 2009. Málinu hafi verið frestað nokkrum sinnum fyrir dómi þar sem samningsumleitanir hafi farið fram milli aðila um hvort konan gæti tekið við fasteigninni á nýjan leik og greitt af skuldum. Hún segist hafa unnið mikið í sínum málum og ef tekjur hennar og sonar hennar, sem bauðst til að gerast meðskuldari hennar, eru lagðar saman þá standist þau greiðslumat hjá bankanum.

Samkvæmt 78. gr. aðfararlaga getur héraðsdómari úrskurðað að fullnægt verði með aðfarargerð rétti manns sem honum er aftrað að neyta og sem hann telur sig eiga og vera svo ljósan, að sönnur verði færðar fyrir þeim með gögnum, sem aflað verður samkvæmt 83. gr. laganna. Héraðsdómari skal að jafnaði hafna aðfararbeiðni, ef varhugavert verður talið að gerðin nái fram að ganga á grundvelli þeirra sönnunargagna, sem heimilt er að afla.

Í úrskurði dómara um hvort bein aðfarargerð fái fram að fara skal leysa úr ágreiningi um umráðarétt en eigi skal slá föstu neinu um hugsanlegan bótarétt, heimild til riftunar eða eignarrétt aðila. Þá er eigi gerð sú krafa að sýnt sé fram á að réttindi gerðarbeiðanda séu í hættu.

Arion banki keypti umrædda fasteign á nauðungarsölu 10. mars 2009.  Fyrir liggur að konan býr ennþá í eigninni þrátt fyrir að samkvæmt lögum þá hafi Arion banki átt að fá eignina til umráða daginn sem hann eignaðist hana eða fyrir rúmu ári síðan.

Segir í niðurstöðu dómara að ljóst sé að konan hafi reynt að ná samkomulagi við bankann um áframhaldandi búsetu hennar í eigninni en samkomulag þar um hefur ekki náðst. Því er búseta hennar þar í óþökk eiganda. Það er niðurstaða dómara að bera skuli konuna út ásamt öllu því sem henni tilheyrir,  úr fasteigninni sem er í eigu Arion banka.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert