Fara þarf yfir lög um erlenda fjárfestingu

Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir mál er varðar kaup Magma Energy í HS-Orku hafa leitt í ljós að lög um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri séu ekki nægilega vel úr garði gerð. Leggja þurfi í vinnu hjá ráðuneytinu í að fara yfir ýmsa þætti laganna.

Niðurstaða nefndarinnar endanleg

Eins og sagt var frá í gær hefur meirihluta ráðherraskipaðrar nefndar komist að því að áðurnefnd lög koma ekki í veg fyrir að Magma Energy kaupi hlut í HS-Orku. Magma er kanadískt félag en kaupir hlutinn í gegnum skúffufyrirtæki í Svíþjóð, en lögin eru rýmri þegar kemur að fjárfestingum fyrirtækja frá Evrópska efnahagssvæðinu.

Ráðherra fór í dag yfir málið með embættismönnum. Hann segir það hlutverk nefndarinnar að taka ákvörðun í málinu og fela svo ráðherra að framkvæma hana. „Þannig að ég hef ekki svigrúm, að því er mér sýnist, til að gera neitt annað en að fara eftir niðurstöðu meirihluta nefndarinnar.“

Lögin ekki vel úr garði gerð 

Málið sýnir hins vegar að lögin séu ekki nægilega vel úr garði gerð, segir Gylfi. „Það er mjög óheppilegt hversu mikil óvissa er um hvernig á að túlka lögin, eins og strax varð ljóst þegar þetta mál kom upp.“ Fram hefur komið að lögfræðiálit á gjörningi Magma hafa verið misvísandi.

Einnig segir Gylfi óheppilegt að pólitískri nefnd sé falið að túlka lög. „Pólitískar nefndir eiga oft rétt á sér en þær eiga þá að taka ákvarðanir sem í eðli sínu eru pólitískar, en ekki að skera úr um réttarágreining.“

Spurning hvort hömlur séu heppilegar

Loks má velta fyrir sér inntaki laganna, bendir Gylfi á; þ.e. hvort eðlilegt sé að hömlur séu settar á erlenda fjárfestingu með þessum hætti. Spurður hvort hann hafi skoðun á því hvort slíkar hömlur séu heppilegar, segir Gylfi: „Ég tel að minnsta kosti tvímælalaust þarft að leggja í vinnu til að fara yfir það, en ætla ekki að gefa mér fyrirfram hver sé líkleg niðurstaða úr þeirri vinnu.“

GYLFI Magnússon viðskiptaráðherra.
GYLFI Magnússon viðskiptaráðherra. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert